Aukið fjármagn í rannsóknir á málum Samherja

Deila:

Héraðssaksóknari hefur sótt um aukafjármagn vegna Samherjarannsóknarinnar og ætlar ríkisstjórnin að verða við því að sögn fjármálaráðherra. Staða sjávarútvegsráðherra hefur ekki verið rædd innan Sjálfstæðisflokksins samkvæmt frétt á visir.is.

Embætti héraðssaksóknara hóf rannsókn á Samherja eftir umfjöllun Kveiks þann 12. nóvember. Sama dag fór Jóhannes Stefánsson sem sagði frá viðskiptaháttum fyrirtækisins í Namibíu í yfirheyrslu hjá héraðssaksóknara. Héraðssaksóknari sótti um aukafjármagn vegna rannsóknarinnar þann 21. nóvember.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að við þessu verði brugðist.

„Bréf héraðssaksóknara er dagsett 21. nóvember sem er örfáum dögum fyrir þriðju umræðu fjárlaga. Undir venjulegum kringumstæðum tökum við við slíkum beiðnum á vorin þannig að þetta er að koma fram ótrúlega seint. Við getum engu að síður brugðist við og embættið er búið að setja fram sínar hugmyndir um fjárþörfina og við munum geta brugðist við því,“ segir Bjarni.

Aðspurður um hversu mikið fjármagnið verður sagði hann ekki tímabært að svara því. Þá fá skattayfirvöld einnig aukafjármagn vegna rannsóknar á Samherja.

„Skattrannsóknarstjóri og ríkiskattstjóra hafa haft samráð með hvernig embættin geta sameinað krafta sína í þessari rannsókn og við munum styðja við þá með þeim sjóðum sem við höfum fyrir embættin,“ segir Bjarni.

Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu var leystur úr haldi lögreglu í gær eftir að samþykkt var að ógilda handtökutilskipun á hendur honum samkvæmt namibískum fjölmiðlum. Þá hafa lögregluyfirvöld í Namibíu sent frá sér handtökutilskipun á fyrrverandi dómsmálaráðherra landsins og tvo aðra sem tengjast málinu. Loks kom fram hjá RÚV að spillingarlögreglan í Namibíu hafi lýst yfir að öll gögn sem hafi verið skoðuð í Samherjamálinu bendi til þess að mútur, peningaþvætti, skattsvik og spilling hafi verið framin. Hér á landi var efnt til mótmæla á Austurvelli í gær og þess krafist að sjávarútvegsráðherra segi af sér vegna málsins.

Bjarni segir að staða sjávarútvegsráðherra hafi ekki verið rædd í Sjálfstæðisflokknum.

„Þess er krafist að það verði samin ný stjórnarskrá, þess er krafist að Kristján Þór víki hann segi af sér það er krafa sem beinist að honum. Ég sé ekki að það sé neitt fram komið sem að bendlar hann við þessi brot sem rætt er um og hans staða hefur ekki verið sérstaklega til umræðu,“ segir Bjarni.

Deila: