Aukin frumframleiðsla austan Íslands

114
Deila:

Í byrjun mars 2020 birtist tímaritsgreinin „Primary Production, an Index of Climate Change in the Ocean: Satellite-Based Estimates over Two Decades“ í Remote Sensing, Volume 12, Issue 5, (Kulk et al., 2020; doi:10.3390/rs12050826). Þar er greint er frá rannsókn á frumframleiðslu svifgróðurs, á heimsvísu, og lagt mat á árlegan breytileika á heildaðri framleiðslu á mismunandi hafsvæðum. Ástæða er til að vekja athygli á rannsókninni og þeirri niðurstöðu að á tímabilinu 1998 – 2018 hefur dregið úr frumframleiðslu svifgróðurs fyrir vestan Ísland, en að sama skapi bætt í framleiðsluna fyrir austan landið. Því ber að fagna að tekið er mið af niðurstöðum staðbundinna rannsókna frá hafsvæðinu umhverfis Ísland. Greinin vakti strax athygli og hefur verið lesin af óvenju mörgum, samkvæmt vöktun Research Gate. Tveir starfsmenn Hafrannsóknastofnunar, Kristinn Guðmundsson og Hafsteinn G. Guðfinnsson, eru meðal höfunda.

Gagnasafnið sem Hafrannsóknastofnunin lagði til framangreindrar rannsóknar er afrakstur vinnu við mælingar á framleiðniafköstum svifþörunga sem fall af birtumagni, framkvæmt á ýmsum árstímum og vítt og breitt við Ísland á þriggja áratuga tímabili. Gögnin voru fyrst tekin saman og notuð, ásamt gögnum frá Færeyjum, í samvinnuverkefni áðurnefndra starfsmanna Hafrannsóknastofnunar og Færeyinga með kanadísku teymi við Bedford Institute of Oceanography. Kanadíska teymið hafði þróað líkan til reikninga á frumframleiðslu með tilliti til staðbundinna niðurstaða, árstíma og breytilegs magns blaðgrænu við yfirborð sjávar, skráð frá gervihnetti  (Platt et al. 2008). Að ósk frá Hafrannsóknastofnun var líkanið notað til reikninga á meðaltölum fyrir framleiðslu á skilgreindu rannsóknasvæði frá Austur Grænlandi til Færeyja, umhverfis Ísland (Zhai et al., 2012). Niðurstöður heildaðrar frumframleiðslu pr. fermetra og ár umhverfis Ísland, reiknað á framangreindan hátt fyrir tímabilið 1998 – 2007, sýna svipaða lárétta dreifingu og tilsvarandi framsetning Þórunnar Þórðardóttur (1994) á jafndreifilínum fyrir reiknaða meðal ársframleiðslu fyrir sama svæði, byggt á niðurstöðum mælinga og reikninga samkvæmt aðferð Steemann Nielsen (1952) frá árunum 1958 – 1982. Reiknað magn kolefnis pr. fermetra og ár fyrir þessi tvö tímabil er hins vegar umtalsvert hærri fyrir seinna tímabilið, en ekki ljóst hvort veldur mestu, munurinn á aðferðunum eða hugsanlegar breytingar á gróðurfari með tíma.

Sömu höfundar og gagnasafn komu aftur við sögu í rannsókn á breytileika í niðurstöðum tilrauna til að meta framleiðniafköst svifþörunga miðað við birtumagn til ljóstillífunar (Bouman et al., 2018). Með því að skala kolefnisbindinguna á móti blaðgrænumagni fást sambærilegar niðurstöður frá mismunandi stöðum og tíma. Í umræddri rannsókn voru greind gögn frá öllum heimsins höfum og niðurstöður frá skilgreindum hafsvæðum (sbr. Longhurst, 2007) bornar saman. Umtalsverður munur reyndist á afkastagetu svifgróðurs, miðað við blaðgrænumagn, frá mismunandi svæðum.

Photosynthesis–irradiance parameters of marine phytoplankton 2018
Photosynthesis–irradiance parameters of marine phytoplankton 2017
Primary Production, an Index of Climate Change in the Ocean 2020
Phytoplankton phenology and production around Iceland and Faroes 2012

 

Deila: