-->

Aukin markaðssókn og styrking innviða

„Árið byrjaði vel með 369 milljónir evra í pantanir, samanborið við 352 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs sem var metsala á þeim tíma. Takturinn er þó annar, þar sem 2020 byrjaði af krafti og hægði svo á í mars samhliða heimsfaraldri, á meðan þetta ár fór hægt af stað en styrktist verulega með mikilli sölu í mars og áframhaldandi góðum horfum,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel um afkomu félagsins á fyrsta fjórðungi þessa árs  í frétt á heimasíðu Marel.

Hann segir þar ennfremur: „Við höfum hraðað fjárfestingum og fjölgað starfsfólki til að styrkja enn frekar markaðssókn og þjónustu um heim allan. Á síðustu mánuðum höfum við haldið áfram að þróa og kynna til leiks nýjar lausnir sem styðja við þær breytingar sem eiga sér stað á neytendamarkaði. Pantanir fyrir staðlaðar vörur og varahluti voru sterkar í öllum iðnuðum. Einnig voru metpantanir fyrir stærri verkefni hjá kjötiðnaði, þar sem við náðum meðal annars stórum samningum í Kína og Brasilíu, en pantanir fyrir stærri verkefni hjá alifuglaiðnaði og fiskiðnaði voru dræmari í fjórðungnum. Pípan er góð fyrir alla iðnaði sem gefur góð fyrirheit um pantanir fyrir næstu fjórðunga. Stafræn þróun er á ógnarhraða, sjálfvirknivæðing og betri nýting gagna og upplýsingatækni er nú þegar að umbylta virðiskeðju matvæla og Marel er í lykilstöðu til að styðja við frekari framþróun.

Í Kína náðum við stórum samningi við Muyuan Group, öðrum stærsta svínaræktanda í heimi. Muyuan hefur verið í fóðurframleiðslu og svínarækt og er nú að útvíkka starfsemi sína yfir í vinnslu. Marel mun afhenda samskonar framleiðslulínur og hugbúnað fyrir mismunandi framleiðslustaði félagsins í Kína til að styðja við samræmd vinnubrögð og auka nýtingu og gæði hráefnis. Einnig ber að nefna stóran samning við Frimesa í Brasilíu, en það mun verða ein stærsta og framþróaðasta verksmiðja í Suður-Ameríku fyrir vinnslu á svínakjöti.

Stoltur af okkar öfluga teymi

Rekstrarhagnaður nam 11,4% og tekjur voru 334 milljónir evra í fjórðungnum. Á fjórðungnum voru áskoranir tengdar vöruflutningum og ferðalögum vegna heimsfaraldurs enn meiri en áður. Til þess að tryggja tímanlegar afhendingar og uppsetningar við þessar krefjandi aðstæður þurftum við að taka á okkur hærri kostnað í framleiðslu, þjónustu og flutningum, sem hafði áhrif á framlegð. Sölu- og stjórnunarkostnaður var einnig hærri en undanfarna fjórðunga. Við höfum aukið við markaðsstarf og vinnum að mikilvægum stafrænum umbótum og sjálfvirknivæðingu í framleiðsluferlum, innkaupum og þjónustu til að auka sveigjanleika og búa okkur undir væntan vöxt. Ég er stoltur af okkar öfluga teymi sem hefur tekist að skila góðri sölu, klárað flóknar uppsetningar og haldið áfram að þjónusta viðskiptavini okkar um heim allan við afar krefjandi aðstæður.

Sjóðstreymi var firnasterkt í fjórðungnum og skuldahlutfall var 0,8x EBITDA við lok tímabilsins. Við héldum áfram að styrkja framboð okkar af heildarlausnum með kaupum á fyrirtækjum sem þjónusta alifugla- og fiskiðnað. Marel stendur sem fyrr við metnaðarfull markmið sín til meðal og lengri tíma, með áframhaldandi vexti og virðisaukningu, þó gera megi ráð fyrir sveiflum á milli ársfjórðunga.“

Allar tillögur stjórnar til aðalfundar samþykktar

Rafrænn aðalfundur Marel sem haldinn var þann 17. mars sl. samþykkti arðgreiðslu sem nemur 5,45 evru sentum á hlut, eða sem samsvarar 40% af hagnaði ársins 2020,og var arðurinn greiddur til hluthafa þann 7. apríl 2021. Stjórn hefur skipt með sér verkum og er Arnar Þór Másson nýr formaður og Dr. Ólafur Guðmundsson varaformaður.

Eftir 11 ár í stjórn Marel, þar af yfir 7 ár sem stjórnarformaður, gaf Ásthildur Otharsdóttir ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Stjórn Marel og framkvæmdastjórn færir henni bestu þakkir fyrir ómetanlegt framlag við störf sín í þágu félagsins. Í stað hennar kom Dr. Svafa Grönfeldt ný inn í stjórn Marel. Svafa gegnir stöðu prófessors við MIT háskólann í Boston og er einn af stofnendum MITdesignX sem er nýjasti viðskiptahraðall MIT. Hún er einnig meðstofnandi “The MET Fund” sem er sprotafjármögnunarsjóður í Cambridge, Massachusetts. Svafa er varaformaður stjórna Icelandair og Össurar og situr í endurskoðunarnefndum beggja fyrirtækja.

Á fundinum var einnig samþykkt tillaga stjórnar um að bæta UFS (ESG) markmiðum inn í skammtímahvatakerfi framkvæmdastjórnar.

Horfur

Markaðsaðstæður hafa verið krefjandi í ljósi umróts á heimsmörkuðum og yfirstandandi COVID-19 heimsfaraldurs. Marel býr að góðri dreifingu tekna á milli markaða og iðnaða í gegnum alþjóðlegt sölu- og þjónustunet sitt ásamt breiðu og framsæknu vöru- og þjónustuframboði. Sem stendur er ekki vitað hver fjárhagsleg áhrif COVID-19 munu verða á Marel.

Marel stendur við vaxtarmarkmið sín til meðallangs- og langs tíma.

Marel stefnir að um 40% framlegð (e. gross profit), 18% sölu-, markaðs- og stjórnunarkostnaði og 6% þróunarkostnaði, til meðallangs tíma.

Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum.

Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.

Gera má ráð fyrir að áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi geti stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.

Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur

Áætlaður vöxtur er háður hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni og því má gera ráð fyrir að hann verði ekki línulegur. Reikna má með breytilegri afkomu á milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.

Marel hefur lokið kaupum á PMJ, alþjóðlegum framleiðanda hátæknilausna fyrir vinnslu á andakjöti, líkt og tilkynnt var um þann 21. janúar 2021.

Þann 29. janúar 2021 tilkynnti Marel um kaup á 40% hlut í Stranda Prolog, norskum framleiðanda hátæknilausna fyrir laxaiðnað.

Aðalfundur Marel 2021 var haldinn rafrænt þann 17. mars 2021. Allar tillögur stjórnar til aðalfundar voru samþykktar og ný stjórn kjörin. Stjórn hefur skipt með sér verkum og er Arnar Þór Másson nýr formaður og Dr. Ólafur Guðmundsson varaformaður.

Helstu atriði fyrsta ársfjórðungs

Mótteknar pantanir sterkar og pípan af nýjum verkefnum að vaxa

Áskoranir í framleiðslu, flutningum og ferðalögum vegna COVID-19 höfðu áhrif á framlegð, einkum á fyrstu vikum ársins

Aukinn rekstrarkostnaður samhliða fjölgun starfsmanna í sölu og þjónustu auk umbótaverkefna til að stuðla að frekari sveigjanleika í rekstri

Pantanir námu 369,4 milljónum evra (1F20: 351,8m).

Pantanabókin1 stóð í 455,3 milljónum evra (4F20: 415,7m, 1F20: 464,6m).

Tekjur námu 334,0 milljónum evra (1F20: 301,6m).

EBIT2 nam 38,0 milljónum evra (1F20: 25,4m), sem var 11,4% af tekjum (1F20: 8,4%).

Hagnaður nam 21,2 milljónum evra (1F20: 13,4m).

Hagnaður á hlut (EPS) var 2,82 evru sent (1F20: 1,76 evru sent).

Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 60,2 milljónum evra (1F20: 61,5m).

Frjálst sjóðstreymi nam 45,5 milljónum evra (1F20: 38,6m).

Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) var 0,8x í lok mars (4F20: 1,0x, 1F20: 0,4x). Markmið félagsins um fjármagnsskipan er að halda skuldahlutfalli milli 2-3x.

Curio er hluti af samstæðuuppgjöri Marel frá og með 4. janúar 2021.

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Um sjötíu nemendur í Sjávarútvegsskólanum útskrifaðir

Kennslu í Sjávarútvegsskóla unga fólksins er lokið þetta árið á Austfjörðum. Nemendur sem sóttu skólann voru 71 talsins og var...

thumbnail
hover

143 tonn af lúðu veidd í...

Á síðasta ári voru veidd og landað nærri 143 tonnum af lúðu þrátt fyrir að allar veiðar á lúðu séu óheimilar. Þetta kemur ...

thumbnail
hover

Oddbjörg hætt hjá LS

Oddbjörg Friðriksdóttir skrifstofustjóri Landssambands smábátaeigenda til rúmlega 30 ára hefur látið af störfum.   Landssamband ...