-->

Aukin samkeppnishæfni – betri lífskjör

 Þorsteinn Már  Baldvinsson, stofnandi og forstjóri Samherja, ræddi samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs á ársfundi Samtaka atvinnulífsins á fimmtudaginn var. Hann sagðist ekki vilja sjálfur leggja mat á stöðuna heldur taka dæmi um hver staðan í löndunum í kringum okkur væri og svo hér heima. Hver og einn gæti svo gert upp við sig hver staða Íslendinga væri. Sagt er frá þessu á heimasíðu LÍÚ.

Íslenskur sjávarútvegur ekki stór

Þorsteinn sagði íslenskan sjávarútveg lítinn í alþjóðlegum samanburði og tók dæmi um tvö norsk fyrirtæki, þau Austevoll og Marine Harvest. Austevoll var ekki fyrir svo margt löngu svipað að stærð og HB Grandi en væri nú stærra en íslenskur sjávarútvegur. Marine Harvest væru um 50% stærra en íslenskur sjávarútvegur samtals og næmi stækkun fyrirtækisins um einum Samherja á ári. Það sem hefði gert Íslendinga samkeppnishæfa var að þeir hefðu búið við hagkvæmt fiskveiðistjórnunarkerfi.  Vaxtarmöguleikar í þorski, sem íslenskur útvegur byggir afkomu sína að mestu á, væru hins vegar litlir á meðan sölu á laxi væri áfram spáð stöðugum vexti.

Íslendingar án alþjóðlegs vörumerkis

Þorskafli Rússa í Atlantshafi er meiri heldur en allur bolfisksafli á Íslandsmiðum að grálúðu meðtaldri og væri framleiðsla þeirra að batna verulega. Íslendingar væru að tapa mörkuðum fyrir sjófrystar afurðir til Rússa þar sem sveigjanleiki þeirra væri meiri, m.a. vegna annarra launakerfa. Bandaríkjamenn væru einnig að sækja í sig veðrið í markaðssetningu á alaskaufsa, sem væri mjög góður hvítfiskur og ættu þeir nú mjög verðmæt vörumerki, m.a. Trident Seafood. Þorsteinn sagði Íslendinga hins vegar ekki lengur eiga mjög verðmæt vörumerki eftir að ákveðið hefði verið af fulltrúum lífeyrissjóða að leigja út vörumerkið Icelandic án þess að ráðfæra sig við fulltrúa frá sjávarútveginum. Hann varpaði svo fram þeirri spurningu hvort einhver teldi að að þeim hefði dottið í hug að gera slíkt hið sama við Icelandair án þess að tala við aðila úr flugi.

Á brattann að sækja

Samkeppnisaðilarnir hefðu ákveðið forskot, þeir hefðu ýmislegt fram yfir Íslendinga þegar kæmi að viðskipta- og rekstraumhverfi. Mun ódýrara væri fyrir samkeppnisaðilana að koma vörum sínum á markað.  Tók hann dæmi um að flutning sjávarafurða til Bandaríkjanna:

Það kostar 2 $/kg að fljúga fiski frá Íslandi til Bandaríkjanna með takmörkuðu flutningsplássi.

En það kostar hins vegar 1 $/kg að fljúga frá Evrópu til Bandaríkjanna með ótakmörkuðu flutningsplássi.Sé horft til Evrópu þá er kostnaðurinn þessi:

Það kostar 1,5 €/kg að fljúga fiskiafurðum til Evrópu.

Það kostar 30 Eurocent/kg að keyra frá Noregi til Mið-Evrópu.

Hæstir í opinberum gjöldum?

Þorsteinn sagðist ekki vilja þreyta hlustendur á umræðu um veiðigjöld en vildi koma því á framfæri að víðast hvar erlendis væru veiðigjöld óþekkt í þeirri mynd sem hér er við lýði. Þar sem veiðigjöld hefðu verið lögð á þá væru þau dregin frá áður en laun sjómanna væru reiknuð af aflaverðmæti. Stundum væri sagt frá veiðigjöldum í makríl í Færeyjum og Grænlandi en þess látið ógetið að þá væri oft verið að ræða um leigu á veiðiheimildum til erlendra fyrirtækja, t.d. kínverskra og rússnenskra. Það væri jafnframt verið að veita fyrirtækjunum aðgang að lögsögum viðkomandi landa vegna þess að löndin hefðu ekki bolmagn til veiðanna sjálf. Þá væri einnig ósagt látið að áhöfnin væri erlend og að skipin myndu ekki landa aflanum í löndunum og væru þau því ekki að greiða skatta til samfélagsins. Þá sagði hann einnig launatengd gjöld á Íslandi væru með því hæsta sem þekkist, ekki síst með tilliti til þess sem greitt er í sameignarlífeyrissjóði. Tók hann nýlegt dæmi um að það kostaði  80 milljónir að koma með nýtt skip eins og Börk til Íslands vegna stimpilgjalda – sambærilegur kostnaður í Noregi væri hins vegar 100 þúsund krónur sem væri sami kostnaður og í Færeyjum.

Skapandi margfeldis áhrif íslensks sjávarútvegs

Framlag íslensks útvegs til þróunar og hönnunar fiskvinnslubúnaðar hefði verið mikið í gegnum árin og stutt mjög við íslenskan iðnað. Sjálfur hafi hann komið að sölu og þjónustu á íslenskum iðnvarningi upp á átta milljarða á tveggja ára tímabili. Í gegnum útveginn hefðu sprottið upp skapandi greinar og mikil margfeldisáhrif orðið.

Hlúa þarf að greininni

Íslendingar ættu að vera leiðandi í þróun á hafsækinni starfsemi vegna legu landsins en því miður væri langt í land að svo væri. Til dæmis væri útgerð fragtskipa ekki lengur til vegna þess að íslensk stjórnvöld og stéttarfélög hlustuðu ekki á fulltrúa fyrirtækja í greininni um að skapa henni samkeppnishæf skilyrði. Íslendingar ættu því ekkert farskip lengur skráð á Íslandi og engin sjómaður væri í vinnu hjá íslenskri farskipaútgerð.Vegna tengsla við hafið ættu Íslendingar að vera með um 1.000 manns í námi við Stýrimannaskólann og í vélstjórnarnámi – fólk sem síðan væri í farabroddi í sinni grein í heiminum. Það væri því mikið verk að vinna í þeim efnum.