Aukinn útflutningur í ágúst

197
Deila:

Alls voru fluttar út sjávarafurðir fyrir 20,3 milljarða króna í ágúst samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar sem birtar hafa verið. Þetta er um 19% aukning í krónum talið miðað við ágúst í fyrra. Gengi krónunnar var að jafnaði rúmlega 13% lægra í ágúst í ár en í sama mánuði í fyrra, og er aukningin því talsvert minni í erlendri mynt, eða tæp 3%. Aukningin kemur í kjölfarið á talsverðum samdrætti í júlí á milli ára en þar á undan var veruleg aukning, eins og við greindum nýverið frá á Radarnum. Farið er yfir útflutninginn og þróun hans ás heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávavrútvegi.

43% af vöruútflutningi
Miðað við ofangreindar tölur er útflutningsverðmæti sjávarafurða komið í rúma 166 milljarða króna á fyrstu 7 mánuðum ársins samanborið við tæplega 169 milljarða á sama tímabili í fyrra. Það er rétt rúmlega 1% samdráttur í útflutningsverðmæti í krónum talið á milli ára en um 10% í erlendri mynt. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá útflutningsverðmæti sjávarafurða á fyrstu 8 mánuðum ársins, bæði á breytilegu gengi og föstu.

Verðmæti vöruútflutnings frá Íslandi í heild var um 386 milljarðar króna á fyrstu 8 mánuðum ársins samanborið við 404 milljarða á sama tímabili í fyrra. Hér er útflutningur á skipum og flugvélum, sem eru einskiptisliðir, undanskilinn en slíkur útflutningur var verulegur í byrjun síðasta árs. Hlutdeild sjávarafurða í vöruútflutningi á þann kvarða er 43% á fyrstu 8 mánuðum ársins, samanborið við tæp 42% á sama tímabili í fyrra. Hefur hlutdeild sjávarafurða ekki verið stærri frá árinu 2016, þrátt fyrir mikla aukningu í útflutningi á eldisafurðum. Það skýrist einkum af samdrætti í útflutningi á annarri vöru, sér í lagi á áli.

 

Deila: