Baldur heldur til mælinga

204
Deila:

Eftirlits- og sjómælingaskipið Baldur hélt af stað í árlegt mælingaúthald síðastliðinn laugardag. Fyrst um sinn verður Baldur við dýptarmælingar á Breiðafirði þar sem mæld verður siglingaleiðin um Norðurflóa inn til Reykhóla. Að því loknu fer Baldur til mælinga við norðanverða Vestfirði þar sem fyrir liggja mælingar í Ísafjarðardjúpi, Jökulfjörðum og með Hornströndum.

Við dýptarmælingar Baldurs eru að öllu jöfnu settir upp flóðmælar í nærliggjandi höfnum til að leiðrétta mælt dýpi fyrir sjávarstöðu en í sjókortum miðast dýpistölur, þ.e.a.s. svokallað kortadýpi, við sjávarhæð á meðalstórstraumsfjöru. Flóðmælarnir eru stilltir af miðað við skilgreinda hæðarpunkta í hæðarkerfum hafnanna.

Vegna fjarlægðar flestra fyrirhugaðra mælingasvæða á norðanverðum Vestfjörðum frá höfnum með skilgreinda hæðarpunkta verður ekki unnt að nota flóðmæla til leiðréttinga á mældu dýpi á þeim svæðum og þurfti að bregðast við því. Settur var upp IRIDIUM gervihnattabúnaður um borð í Baldri til að tryggja netsamband svo hægt sé að streyma gögnum úr GPS leiðréttingakerfi ÍSMAR til skipsins þó hefðbundinn GSM símabúnaður detti út. Með því móti verður unnt að ákvarða staðsetningu með svokallaðri GPS RTK nákvæmni, en þá er skekkja staðsetningar einungis örfáir sentimetrar.

Dýptarmælingar með GPS RTK nákvæmni eru vel þekktar en þá eru skilgreind hæðarkerfi hafnanna notuð til að reikna út rétt dýpi. Í tilviki Baldurs, þar sem vegna fjarlægðar er ekki hægt að nota þessa hæðarkerfi til útreikninga, voru fengin gögn frá Landmælingum Íslands og Vegagerðinni og út frá þeim voru útbúin hæðarlíkön fyrir meðalsjávarhæð og meðalstórstraumsfjöru. Hæðarlíkönin, sem ná yfir stórt svæði og taka því breytingum eftir staðsetningum, eru keyrð inn í mælingaforrit um borð í Baldri og með nákvæmum hæðarupplýsingum úr GPS staðsetningatæki skipsins getur mælingaforritið þannig reiknað rétt kortadýpi samtímis því sem dýpi er mælt hverju sinni.

Þrátt fyrir þessa breyttu aðferð við mælingarnar og útreikninga á kortadýpi verða þó áfram settir upp flóðmælar þar sem því verður við komið, bæði þar sem það þykir henta betur og eins til að bera saman mælingagögn.

Áætlað er að Baldur verði við mælingar við Vestfirði fram undir miðjan september.

Á meðfylgjandi mynd sem tekin var fyrir  fyrir brottför Baldurs eru frá vinstri: Marteinn E. Þórdísarson bátsmaður, Guðm. Birkir Agnarsson skipstjóri, Ágúst Ó. Valtýsson vélstjóri, Hjörtur F. Jónsson stýrimaður og Andri Leifsson yfirstýrimaður.

Deila: