Bannað að framleiða lýsi til manneldis úr fiskslógi

Deila:

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur staðfest ákvörðun Matvælastofnunar þess efnis að synja umsókn um heimild til þess að framleiða lýsi til manneldis úr fiskislógi. Ráðuneytið tekur undir þá skoðun stofnunarinnar, að hráefnið sé ekki ætlað til manneldis og að óheimilt sé að markaðssetja matvæli sem ekki geti talist örugg. Frá þessu er greint á ruv.is

Matvælastofnun synjaði umsókninni upphaflega í nóvember árið 2014. Umsækjandinn kærði þá niðurstöðu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í apríl árið 2015. Úrskurðinn má sjá hér.

Kærandinn sótti upphaflega um leyfi til fiskvinnslu, sem fæli í sér leyfi til að búa til lýsi og mjöl úr fiskslógi, í júlí árið 2013. Matvælastofnun synjaði þeirri umsókn rúmu ári síðar. Kærandinn krafðist þess að sú ákvörðun yrði felld úr gildi þar sem hann taldi niðurstöðuna byggða á röngum lagaskilningi.

Hreinsað og unnið

Kærandi byggði meðal annars á því að gildandi lög og reglur séu ekki fortakslaus um að óheimilt sé að framleiða lýsi úr slógi til manneldis. Rétt meðhöndlun hráefnis skipti sköpum um hvort hægt sé að vinna úr því vöru til manneldis. Matvælastofnun gefi sér hins vegar að slóg geti aldrei verið hæft til manneldis, óháð meðhöndlun þess.

„Bendir kærandi á að slógið sem um ræði í þessu tilfelli séu fiskmagi og skúflanga. Það fari í gegnum hitameðhöndlun á 90°C í eina klukkustund og svo sé allt fastefni skilið frá. Soðlýsi sem skilið sé frá innihaldi lýsi. Því sé haldið 90°C heitu og lýsið svo skilið frá soðinu. Lýsið sé skilið í lýsisskilvindu, til að hreinsa óhreinindi og vatn úr því. Heitu vatni sé bætt í lýsið áður en það fari í skilvinduna til að þvo það, þannig fáist þvegið lýsi. Lýsið verði síðan hreinsað og unnið eftir kröfum markaða,“ segir í úrskurði ráðuneytisins.

Þá bendi kærandinn á að mörg dæmi séu um að innyfli séu notuð til manneldis. Matvælastofnun hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu og ekki gefið honum tækifæri til þess að sýna fram á hvernig hráefnið væri meðhöndlað. Þá hafi stofnunin ekki gætt meðalhófs við úrlausn málsins auk þess sem synjunin brjóti jafnræðisreglu þar sem fyrir liggi að vörur úr slógi eða innyflum hafi verið leyfðar til manneldis.

Ekki öruggt

Í umsögn sinni vísaði Matvælastofnun meðal annars til úrskurðar ráðuneytisins frá því í janúar 2013, þar sem Matvælastofnun hafði gert athugasemd við að hráefni væri blandað saman í fiskikari þannig að bein, hausar og slóg blandaðist saman. Í því máli hafi niðurstaða ráðuneytisins verið sú að óheimilt væri að markaðssetja matvæli sem ekki væru örugg.

Þá kveði reglur á um að þegar fiskur sé slægður um borð skuli það gert samkvæmt reglum um hollustuhætti, og að afurðirnar skuli þvegnar vandlega þegar í stað. Í slíkum tilfellum skuli innyfli og aðrir heilsuspillandi hlutar fisksins skilin frá sem fyrst og haldið aðskildum frá afurðum sem ætlaðar eru til manneldis. Ekki sé því unnt að heimila framleiðslu á fiskilýsi ætluðu til manneldis þegar hráefnið sé ekki ætlað til manneldis. Engu skipti þó hið óhreinsaða lýsi sé hreinsað á síðara vinnslustigi.

Þá hafnaði stofnunin öllum ásökunum um að hafa brotið lög við meðferð málsins.

Ráðuneytið  tekur undir þessi sjónarmið í úrskurði sínum og staðfestir því ákvörðun Matvælastofnunar um að synja leyfinu.

 

 

Deila: