Beitir með 3.000 tonn af kolmunna

106
Deila:

Snemma í morgun kom Beitir NK með um 3.000 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar. Aflinn fékkst suður af Færeyjum í sjö holum. Í stærsta holinu fengust 550 tonn. Tómas Kárason skipstjóri segir að veiðiútlit þarna sé nokkuð gott.

„Þarna er töluvert af fiski að sjá. Hann virðist koma í gusum. Stundum dettur þetta niður en gýs svo upp á ný í miklu magni. Menn hafa verið á sama blettinum frá því að veiðarnar hófust og þarna hafa verið um 50 skip af ýmsu þjóðerni. Það er semsagt um verulega traffík að ræða. Norðmenn eru enn að veiða fyrir sunnan línuna í skosku lögsögunni þannig að það  virðist töluvert af fiski eiga eftir að ganga þarna norður eftir. Það eru góðar líkur á áframhaldandi veiði og menn eru bara bjartsýnir. Við munum halda til veiða í kvöld strax að löndun lokinni. Það er farið mjög varlega á meðan staldrað er við í landi vegna kórónuveirunnar. Umferð um skipið er í algeru lágmarki og áhöfnin þarf að fara varlega og virða allar ströngustu reglur í samskiptum við fólk,“ segir Tómas í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Ljósm. Guðlaugur Björn Birgisson

 

Deila: