Beitir með stærsta loðnufarm sem komið hefur til löndunar í Noregi

Deila:

Í frétt á heimasíðu Norges sildesalgslag kemur fram að loðnufarmurinn sem Beitir NK landaði í Vedde við Álasund um sl. helgi sé hinn stærsti sem borist hefur til norskrar hafnar. “Største loddefangst på en kjøl landet til norsk kjøper,” segir í fréttinni. Farmurinn sem Beitir landaði í Vedde vigtaði 3.061 tonn.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Tómas Kárason, skipstjóra á Beiti, í gærmorgun og spurði hvort honum þætti þetta ekki athyglisverð frétt. „Jú, það verður að segjast. Við gerðum okkur enga grein fyrir því að við værum að landa þarna stærsta loðnufarmi sem borist hefði til Noregs. Nú skil ég heillaóskir sem ég fékk sendar frá norskum skipstjóra og vini mínum í morgun. Það gekk afar vel að landa þarna í Vedde. Verksmiðjan er búin íslenskum tækjum og verksmiðjustjórinn er íslenskur. Núna erum við staddir í leiðindabrælu um 190 mílur norðaustur af Færeyjum og erum á leiðinni á loðnumiðin. Við náum væntanlega inn í trollhólfið í kvöld. Annars er allt gott að frétta,” segir Tómas.

Í þessu sambandi er rétt að minna á að fyrr í vikunni landaði Börkur NK á Seyðisfirði stærsta loðnufarmi sem landað hefur verið hér á landi. Sá farmur var 3.211 tonn.
Beitir NK landar metfarminum í Vedde sl. föstudag. Ljósm. Ola Kåre Dybvik

Deila: