Besti grálúðutúr Blængs

210
Deila:

Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gær með fullar lestar. Aflinn í veiðiferðinni var 570 tonn upp úr sjó að verðmæti á milli 280 og 290 milljónir króna. Uppistaða aflans var grálúða en síðan var nokkuð af ufsa og djúpkarfa. Skipstjóri í veiðiferðinni var Bjarni Ólafur Hjálmarsson og segir hann að túrinn hafi tekið 35 daga.

„Við vorum að veiðum á Hampiðjutorginu og í Víkurálnum allan túrinn. Grálúðan fékkst á Hampiðjutorginu en það er við miðlínuna á milli Íslands og Grænlands. Þarna er veitt á miklu dýpi eða frá 350 til 600 föðmum. Það er hvergi veitt á meira dýpi hér við land. Þetta er besti grálúðutúr Blængs frá upphafi og má segja að túrinn hafi gengið vel allan tímann. Við vorum heppnir með veður en ekki er óalgengt að veður séu slæm á Hampiðjutorginu,“ segir Bjarni Ólafur í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Blængur mun halda til veiða á ný næstkomandi mánudag og þá verður stefnan sett á Barentshafið. Gert er ráð fyrir 40 daga túr í Rússasjónum.

Ljósmynd Smári Geirsson

 

Deila: