-->

Björt en ekki svört skýrsla

„Það er ekki hægt að segja annað en að þessi skýrsla sé „björt“ í sögulegu samhengi. Þetta er aukning á leyfilegum heildarafla á okkar helstu botnfiskstofnum sem er mjög jákvætt. Þetta sýnir að góðir hlutir gerast hægt og með margvíslegum aðgerðum næst árangur. Segja má að þorskurinn sé skólabókardæmi um það hvernig snúa má óæskilegri þróun við. Í raun og veru eru allar væntingar okkar að ganga eftir,“ segir Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafró, í samtali við kvotinn.is
Hann segir að inn í þorskstofninn séu að koma nokkrir meðalsterkir árgangar, eftir mjög lélega árganga 2001 til 2007, þannig að algjör viðsnúningur hafi orðið þar. „Auðvitað þurfum við að fá fleiri sterka árganga til að geta búist við því að aukningin verði mikil. Þetta mun hægt og bítandi aukast á grundveli þess efniviðar sem við nú þegar höfum. Allt bendir til þess að við verðum komnir upp í 250.000 tonna afla á næstu árum. Við þurfum svo að fá sterka árganga til að aukningin verði mikið meiri en það,“ segir Jóhann. Hann nefnir einnig góða stöðu ufsa og gullkarfa og að auka megi ýsuafla.
„Það er líka mjög jákvætt með sumargotssíldina að hún er langt yfir væntingum okkar. Sýkingin í stofninum sem hefur verið viðvarandi síðan árið 2008 er í rénun og það sem mikilvægara er að afföllin eru ekki eins mikil og við gerðum ráð fyrir af völdum sýkingarinnar. Við erum svo að sjá uppvaxandi síldarárganga sem eru bragglegir og reyndar ekki sýktir. Því eru horfur mjög jákvæðar hvað sumargotssíldina varðar.“
Jóhann segir að upptaka svokallaðrar aflareglu við stjórn fiskveiða sé mjög mikilvæg: „Við getum í raun og veru aldrei stjórnað veiðum nema innan þess umhverfisramma sem við höfum á hverjum tíma. Umhverfisskilyrði þurfa að vera hagstæð til að stofn geti stækkað. Hafrannsóknastofnun hefur á undanförnum árum og áratugum veitt ráðgjöf á grundvelli hámarks afraksturs til langtíma og með tillliti til þess að nýta hvern árgang eins vel og hægt er, þann efnivið sem er í stofninum á hverjum tíma. Aflareglur og opinber nýtingaráætlun eins og við erum að tala um nú í dag og er krafan í alþjóðasamfélaginu er í raun ekkert frábrugðin því sem við höfum verið að viðhafa eftir okkar bestu getu áður en aflareglan var tekin upp. Hún er hins vegar formfesting á þeim hætti sem við höfum haft á undanförnum árum og í raun og veru tryggir að betur sé farið eftir ráðgjöf okkar. Hún styrkir jafnframt stöðu okkar í alþjóðasamfélaginu sem gerir ekki aðeins kröfur um sjálfbærni veiða og ábyrga fiskveiðstjórnun, heldur einnig að hægt sé að sýna með óyggjandi hætti svo sé. Það gerum við með aflareglunni sem hefur verið samþykkt af Alþjóða hafrannsóknaráðinu,“ segir Jóhann Sigurjónsson.