„Blá fæða“ úr höfum og vötnum

91
Deila:

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti í gær ávarp á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um matvælaframleiðslu í heiminum. Ráðstefnan, sem fram fer í Róm og á netinu, er undirbúningur fyrir Matvælaráðstefnu SÞ, Food System Summit, sem haldin verður í september.

Í ávarpi sínu benti Katrín m.a. á að matvælaframleiðsla í heiminum væri ósjálfbær því hún gengi mjög nærri vistkerfum jarðar og ætti stóran hlut í losun gróðurhúsalofttegunda og hnignun lífríkis. Á sama tíma og um milljarður manna í heiminum byggi við hungur og um tveir milljarðar væru vannærðir, væri um þriðjungi matvæla sóað með einum eða öðrum hætti.

Katrín sagði einnig að til þess að vinna bug á hungri í heiminum þyrfti aðeins brot af þeim fjárframlögum sem auðug ríki hafa á undanförnum mánuðum veitt í hagkerfi sín vegna heimsfaraldursins.

Þá minntist forsætisráðherra í ávarpinu sérstaklega á stöðu Íslands sem matvælaframleiðanda sem sækti hráefni sín í hafið. Heilbrigð höf væru forsenda fyrir farsæld Íslendinga og hluti af því að teljast góður framleiðandi matvæla er að standa sig vel í umhverfismálum.

Þá kom fram í máli forsætisráðherra að Ísland styður einnig átak um skólamáltíðir um víða veröld sem sérstaklega var til umræðu við undirbúning ráðstefnunnar.

Ráðstefnunni í Róm lýkur á morgun en samstarfshópur utanríkisráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins hefur annast undirbúning fyrir hönd Íslands.

Á morgun verður tilkynnt um stofnun á nýjum aðgerðahópi þeirra sem vilja vekja athygli á og berjast fyrir að svokölluð „blá fæða“ úr höfum og vötnum hljóti veglegan sess í endurbættum matvælakerfum. Stofnun þess hóps hefur verið eitt af baráttumálum Íslands í aðdraganda ráðstefnunnar.

Deila: