Blanda af innri og ytri vexti

218
Deila:

Aðalfundur Marel hf. var haldinn rafrænt og í höfuðstöðvum félagsins að Austurhrauni 9, 210 Garðabæ, þann 18. mars 2020 kl. 16:00. Allar tillögur stjórnar til aðalfundar voru samþykktar. Tillögurnar eru aðgengilegar á vefsíðu fundarins: https://marel.com/investors/shareholder-center/shareholder-meetings/

Stjórnarformaður félagsins Ásthildur Otharsdóttir ávarpaði fundinn fyrir hönd stjórnar og Árni Oddur Þórðarson forstjóri gaf skýrslu um fjárhagsárið 2019 og veitti innsýn í starfsemi félagsins.

Úr skýrslu stjórnarformanns Marel, Ásthildar Otharsdóttur:

Þessir óvenjulegu tímar eru vægðarlaus áminning um það hversu mikilvægt aðgengi að öruggum matvælum er fyrir alla. Ef litið er framhjá þeim faraldri sem nú geisar er spurningin hvernig við fæðum ört vaxandi fólksfjölda ein af stærstu áskorunum sem heimurinn stendur frammi fyrir. Við verðum að finna nýjar leiðir til að framleiða hágæða matvæli á sjálfbæran og hagkvæman hátt. Áætluð sjötíu prósenta aukning í eftirspurn eftir matvælum á næstu þrjátíu árum gengur einfaldlega ekki upp í ljósi loftslagsbreytinga, takmarkaðra auðlinda jarðar og gegndarlausrar sóunar í matvælaframleiðslu.

Marel er í einstakri stöðu til að uppfylla hlutverk sitt og afhenda lausnir sem mæta núverandi og framtíðareftirspurn matvælaframleiðenda og neytenda. Við stöndum við metnaðarfulla 10 ára vaxtaráætlun okkar, sem kynnt var árið 2017. Vöxtur félagsins er blanda af innri og ytri vexti og er knúinn áfram af nýsköpun og markaðssókn, ásamt stefnumarkandi yfirtökum og samstarfi. Það eru tækifæri til frekari sameininga á okkar markaði og Marel býr yfir fjárhagslegum styrk til að nýta þau.“

Úr skýrslu forstjóra Marel, Árna Odds Þórðarsonar:

„Marel hefur árið 2020 af krafti með sterka samkeppnisstöðu og firnasterkan fjárhag. Það sem af er ári er metstaða í mótteknum pöntunum samanborið við fyrri ár. Í nánu samstarfi við viðskiptavini okkar er viðfangsefni okkar að sjá til þess að afhenda gæðavörur á réttum tíma og réttum stað þrátt fyrir margslungnar áskoranir í virðiskeðjunni sem mun hafa í för með sér aukinn tímabundinn kostnað.

Við erum þeirrar gæfu aðnjótandi að búa yfir fjárhagslegum styrk í kjölfar útgáfu hlutabréfa í tengslum við tvíhliða skráningu hlutabréfa félagsins í Amsterdam. Að auki tryggðum við langtímafjármögnun félagsins í byrjun þessa árs með 700 milljóna evra sambankaláni. Í varúðarskyni drógum við í síðustu viku 600 milljónir evra á það lán og munum við því sjá óvenjulegan efnahagsreikning með hárri sjóðsstöðu í lok fyrsta ársfjórðungs.

Marel leikur lykilhlutverk í innviðauppbyggingu í matvælavinnslu. Í nánu samstarfi við viðskiptavini okkar um allan heim einsetjum við okkur að tryggja stöðugt framboð af öruggum og hagkvæmum matvælum. Við staðfestum okkar tekju- og afkomumarkmið sem hafa verið sett fram fyrir árin 2023 og 2026.“

Eftirfarandi aðilar voru kosnir í stjórn Marel hf.:

Ann Elisabeth Savage
Arnar Þ. Másson
Ásthildur Margrét Otharsdóttir
Ástvaldur Jóhannsson
Lillie Li Valeur
Dr Ólafur Guðmundsson
Ton van der Laan

Margrét Jónsdóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Hún hefur setið í stjórn Marel í 14 ár og er henni þakkað sérstaklega fyrir vel unnin störf í þágu félagsins. Lillie Li Valeur kemur ný inn í stjórn Marel. Lillie er fædd árið 1970 og er forstjóri Good Food Group í Danmörku. Síðustu 18 árin hefur Lillie gegnt stjórnunarstöðum hjá Arla Foods í Asíu sem og á alþjóðlegum vettvangi, þar á meðal hefur hún verið framkvæmdastjóri fyrir Arla Foods í Kína, framkvæmdastjóri fyrir Arla Foods í suð-austur Asíu og framkvæmdastjóri á alþjóðlegu sviði Arla Foods fyrir mjólkurdrykki. Fyrir þann tíma var Lillie stjórnandi hjá Novartis í Shanghai og stjórnendaráðgjafi hjá Bain & Company í Peking. Hún sat í stjórn og endurskoðunarnefnd Aarhus Karlshamn AB, sem er skráð á Nasdaq Stokkhólmi, á árunum 2013 til 2020, og Meda AB frá 2015-2016.

Stjórn hefur skipt með sér verkum og er Ásthildur Margrét Otharsdóttir áfram formaður og Arnar Þór Másson verður áfram varaformaður.

Endurskoðunarskrifstofan KPMG ehf. var kosin endurskoðandi félagsins.

 

Deila: