Bleikja í betra lagi

331
Deila:

Bleikja er alveg einstakur fiskur, fallegur bragðgóður og hollur. Bleikjan er heimskautafiskur og neysla nokkuð bundin við norðlægari lönd. Hún er einn af dýrari réttum á bestu veitingahúsum og er einnig notuð í sushi í Japan. Ísland er stærsti framleiðandi af bleikju úr landeldi í heiminum og er Samherji fiskeldi stærsti einstaki framleiðandinn í veröldinni. Að auki eru nokkrar bleikjueldisstöðvar á landinu og því alltaf hægt að fá ferska bleikju í matinn og halda góða veislu.

Innihald:

800g bleikjuflök í jöfnum bitum
2 msk. kapers
2 msk. möndlur
3 msk. perlulaukur úr krukku
aspas, ferskur eða úr dós, 8 til 16 stönglar
3 msk. hlynsýróp
smjör til steikingar
1 tsk sesamolía
sítróunupipar

Aðferð:

Hitið smjörið og sesamolíuna á góðri pönnu. Skolið flökin með köldu vatni, og þerrið. Kryddið bleikjuna beggja vegna með sítrónupipar. Steikið fyrst á holdhliðinni til að fá smá lit á hana. Snúið bitunum við og steikið á roðhliðinni í 3-5 mínútur eða lengur ef fólk vill roðið stökkt, en þannig er það mjög gott. Hellið hlynsýrópinu jafnt yfir bitana, og setjið kaperskornin og perlulaukinn út á pönnuna undir lokin.
Ef aspasinn er ferskur þarf að snyrta stönglana og sjóða fyrst í léttsöltuðu vatni í 2 mínútur og síðan steika í smjöri á pönnu í augnablik. Sé aspasinn úr dós eða krukku er best að hita hann aðeins upp í smjöri. Rista þarf möndlurnar á þurri pönnu uns þær fara að brúnast.
Færið bleikjubitana upp á fjóra diska og jafnið aspasnum, kaperskornunum, perlulauknum og möndlunum á diskana og berið fram með fersku salati að eigin vali og soðnum kartöflum.

Deila: