Bolfiskhöfnin Grindavík, sú stærsta á landinu

144
Deila:

Myndatextar:

Sigurður Kristmundsson hafnarstjóri í Grindavík dýrt að dýpka höfnina, en það séu þó varanlegar aðgerðir.

Nú er unnið að því að skipta um dekk á Kvíabryggju, en þar landa smábátar sem þurfa á löndunarkrana að halda.

Lokið er viðamiklum endurbótum á Miðgarði. Þar er nú í boði landtenging í rafmagni og hitaveita fyrir skipin.

-rætt við Sigurð Kristmundsson, hafnarstjóra í Grindavík

„Árið 2020 var mjög gott ár, þar sem aflaverðmæti Grindavíkur var það næsta hæsta yfir landið, samtals 12 milljarðar króna. Aðeins höfuðborgarsvæðið skilaði meira aflaverðmæti. Þá var Grindavík í sjötta sæti yfir landaðan afla. Afli í Grindavíkurhöfn er eingöngu að segja má bolfiskur. Þetta ár stefnir í fínt ár líka. Árið 1985 var landað hér rúmlega 20.000 tonnum af bolfiski. Í fyrra var landað hér 46.000 tonnum eftir að Hagstofan hefur umreiknað afla frystitogara. Það er því meira en tvöfalt magn af bolfiski að koma hér inn til löndunar en 1985.“

Blikur á lofti vegna kvótaskerðingar

Sigurður Kristmundsson hafnarstjóri

Þetta segir Sigurður Kristmundsson, hafnarstjóri í Grindavík um umsvif hafnarinnar og hann heldur áfram: „Þetta er þveröfugt við það sem margir eru að halda fram að hér sé alltaf minna og minna um að vera. Það er vegna þess að skipin eru margfalt afkastameiri en þau voru áður. Skipin eru að veiða bolfisk allt árið um kring, en ekki að fara yfir i aðrar tegundir ein og humar, síld, eða rækju. Grindavík er orðinn bolfiskihöfn og sú stærsta á landinu. Það eru reyndar blikur á lofti vegna skerðingar á þorskkvótanum um 13%. Það mun draga úr umsvifum í höfninni. Um 40% af afla línubátanna hér er landað í öðrum höfnum. Þá eru 60% eftir og þau koma eftir áramót. Þannig að þegar bátarnir halda áfram að veiða fjarri Grindavík og landa annarsstaðar, verður það hlutfall hærra vegna skerðingarinnar. Við sjáum fram á að þessi skerðing lendi öll á okkur, en á móti kemur kannski hærra fiskverð.“

Kvíabryggja endurbætt

Nú standa yfir endurbætur á Kvíabryggju og er það Köfunarþjónusta Sigurðar ehf. sem sér um verkið. Hún var næst lægst í útboði verksins, en sá sem lægst bauð, þótti ekki hafa nægilega fjárhagslega burði til að valda verkinu. „Þetta verk kostar 32 milljónir og er í raun og veru aðeins skammtímalausn. Hugsað til 10 til 15 ára. Það  felst í því að skipta um dekkið á bryggjunni og bæta við nokkrum bitum, en lyftararnir voru farnir að keyra þarna í gegn. Þetta er mjög mikilvæg bryggja fyrir smærri báta sem þurfa á löndunarkrana að halda. Þess vegna verðum við að gera þessa bryggju upp.

Nú er veriðað vinna að endurbótum á Kvíabryggju.

Í ljósi löndunar síðustu tveggja ára hefur verið mikið kraðak af bátum í höfninni á álagstímum við Kvíbryggju. Við ætlum því að bæta við einum löndunarkrana á Miðgarð og verðum því með fimm löndunarkrana í gangi á næstu vertíð. Þá getum við afgreitt bátana hraðar og betur og þess er líka gætt að hafa kranana sem næst hafnarvoginni svo lyftararnir þurfi ekki að keyra langar leiðir með körin.“

Dýrt að dýpka höfnina

Á undanförum árum hafa verið gerðar miklar endurbætur á Miðgarði, sem er 220 metra langur bryggjukantur. „Hann er nú uppgerður allur, bæði þil og plan og dýpkað var við hann. Dýpið var frá 3,5 metrum í 5,5 en nú er dýpið við bryggju allt orðið átta metrar. Menn stranda því ekkert lengur þarna. Skipin sem við erum að þjónusta geta lagst hvar sem er við þessa bryggju og þurfa ekki að sæta falli til að koma að eða frá. Það er mikil bót fyrir okkur.“

Framkvæmdir við dýpkun hafna eru mjög mismunandi. Í Grindavík þarf að sprengja sig niður en á mörgum öðrum stöðum er einfaldlega dýpkað með sanddælingu. „Þetta eru óhemju dýrar aðgerðir. Til að fjarlægja 1 rúmmetra hjá okkur, þarf að bora, sprengja og moka svo grjótinu upp. Það er 10 sinnum meira heldur sanddæling. Á hinn bóginn eru það varanlegar framkvæmdir því við sandburður inn í höfnina er lítill sem enginn. Sá rúmmetri sem fer, þó hann kosti 10 þúsund kall, er ekki að koma aftur.

Rafmagn og heitt vatn í boði

Lagt hefur verið rafmagn í bryggjurnar og hægt að afgreiða rafmagn í öll skip, en frystitogararnir eru þurftarmeiri en ísfiskskipin og þó þeir taka rafmagn líka úr landi, þurfa þeir að keyra ljósavélar við löndun. „Það er í skoðun hvernig það verður leyst. Það má gera aðeins betur. Við erum líka með pósta á Miðbakka þar hægt er að fá heitt vatn til upphitunar á skipunum í landi í stað þess að nota rafmagn. Til þess að það gangi þarf að breyta tengingum í skipunum, en við hitum reyndar hafnsögubátinn Bjarna Þórarinsson með heitu vatni.

Hugað að lengri varnargörðum

Við viljum náttúrulega efla höfnina og gera hana betri og því er verið að setja í gang skoðun á því hvort mögulega sé hægt að skýla innsiglingunni með stærri varnargörðum. Okkur langar til að hafa þá enn stærri en nú eru og enn utar. Það er kannað með tölvulíkani. Ef það gengur upp myndi það auka öryggi við innsiglinguna verulega og hjálpa þeim skipum sem eru stærst. Tómas Þorvaldsson er risaskip og Hrafn Sveinbjarnarson líka í stærra lagi. Þessi skip geta ekki komið hingað í hvaða veðri sem er eins og aðstæður eru núna. Þau hafa þá þurft að fara í Hafnarfjörð til löndunar. Það er reyndar ekki oft og ég held að 12 síðustu landanir Tómasar hafi verið hér í Grindavík. Það kemur samt fyrir að við erum að missa af góðum köflum til dæmis í febrúar, þegar mest er um að vera í veiðunum.

Gjaldskrá hafna er svolítið flókin. En lestagjald og bryggjugjald miðast við brúttótonn hvers báts eða skips. Svo þarf að greiða fyrir rafmagn sé það tekið, greiða fyrir vatn, greiða þarf fyrir móttöku sorps. Svo eru kranagjöld og aflagjöld og hver þjónustuþáttur gerður upp fyrir sig. Þetta er eins og að kaupa vörur út úr búð, hver hlutur eða hver þáttur kostar sitt. Þessar tekjur eru svo notaðar í rekstur hafnanna, en stærri framkvæmdir eru fjármagnaðar af hinu opinbera og viðkomandi sveitarfélögum. Enda eru hafnirnar mikilvægur hluti samgagna landsins.

Viðtalið birtist fyrst í 5. tölublaði Sóknarfæris, sem Ritform gefur út. Blaðinu er dreift til fyrirtækja um allt land, en það má einnig lesa á heimasíðu Ritforms https://ritform.is/


Deila: