-->

Borga mest fyrir íslenskan línufisk

Breskir neytendur eru tilbúnir til að greiða  meira en 20% hærra verð fyrir frystan línufisk  en fisk veiddan á annan hátt. Þetta er niðurstaða úr könnun sem gerð hefur verið af norskum og breskum aðilum. Könnunin sýnir enn fremur að sé fiskurinn frá Íslandi eru neytendur tilbúnir til að greiða enn hærra verð.

Þetta kemur fram á netmiðlinum fishupdate.com
Vefurinn ræðir við Norðmanninn Geir Sogn-Grundvåg fulltrúa Nofima, sem er Matís þeirra Norðmanna, en hann vann könnunina ásamt tveimur breskum vísindamönnum. „Rannsóknir okkar sýna að berskir neytendur eru tilbúnir til að boga allt að 22% hærra verð fyrir frystan þorsk og ýsu, sé fiskurinn merktur „línufiskur“, „line-caugth“. Sé fiskurinn íslenskur að auki fæst enn meira fyrir hann og mikil verðmunur er á milli verslanakeðja,“ segir Sogn-Grundvåg. Hann telur að nú, á tímum mikils þrýstings á fiskverð vegna sögulegs hámarks í framboði og minnkandi kaugetu neytenda, sé gott tækifæri fyrir fiskiðnaðinn til að bæta stöðu sína með því að auka fjölbreytni í framboði.
Á árinu 2010 hóf Nofima vikulega skráningu á 100 mismunandi frosnum fiskafurðum úr þorski, ýsu og Alaskaufsa hjá sjö verslanakeðjum. Hún er hluti af fjögurra ára verkefnis sem fjármögnuð hefur verið af norskum rannsóknasjóði. Sjávarútvegsráðuneyti Bretlands hefur nú tekið við því kefli.
Lögð er áhersla á greina hvernig verðlagning á einstökum afurðaflokkum breytist eftir vörulýsingum og hvernig þær leiða til þess að kaupendur velja frekar tiltekna vöru og hvers vegna þeir eru tilbúnir til að greiða hærra verð fyrir hana. Skýringin á því að allt að 22% hærra verð fæst fyrir þorsk og ýsu veidda á línu, er sú að gæði línufisks eru oft meiri en fisks sem veiddur er í önnur veiðarfæri. Hann endurspeglar því þau gæði sem neytendur vilja og eru tilbúnir til að borga fyrir. Þá telur Norðmaðurinn að ástæða þess að verslanakeðjurnar kjósi að bjóða upp á línufisk sé sú, að línuveiðar hafi minni áhrif á hafsbotninn og passi því vel við þá viðleitni þeirra til sýna fram á ábyrgð og stuðning við sjálfbærar fiskveiðar.
Hann segir að frá sjónarhorni Norðmanna sé það áhugavert að íslenskur fiskur seljist á 5% hærra verði en annar. Útflutningsráð fiskafurða í Noregi sé nú að hefja markaðssókn á breska markaðnum og þessi staðreynd hljóti að skipta þar máli.
Verð er eins og áður sagði mishátt milli verslanakeðja. Viðskiptavinir Marks & Sencer greiða hæsta verðið fyrir soðninguna. Næst koma Coop og Waitrose og hjá öðrum er verðið mun lægra. Þá eru á boðstólum fiskur merktur tveimur frameiðendum, en annars er hann merktur keðjunum sjálfum. Það eru Birds Eye og Youngs og er fiskur frá Birds Eye mun dýrari. Alaskaufsi er í öllum tilfellum mun ódýrari en þorskur og ýsa.
Sogn-Grundvåg segir að mikill verðmunur milli verslanakeðja muni koma að notum fyrir norska útflytjendur og sömuleiðis hve miklu máli skiptir hvernig fiskurinn er merktur. Hugsanlega geti aðrar merkingar en „línufiskur“ eins og „sjófrystur“ leitt til hærra verðs.
íslenskur fiskur hefur árum saman selst á hærra verði en norskur á breskum mörkuðum. Megin skýringin er meiri gæði á íslenskum fiski og að einhverju leyti hærra vinnslustig. Framboð á fiski frá Noregi er óstöðugt, en megnið af þorskafla Norðmanna er tekið á vetrarvertíð.