Börkur II verður Barði

126
Deila:
Fyrsti Barði var smíðaður í Austur-Þýskalandi árið 1964. Ljósm. Guðmundur Sveinsson.

Börkur II mun fá nafnið Barði og einkennisstafina NK 120. Fyrsta skipið sem Síldarvinnslan eignaðist bar einmitt þetta nafn og þessa einkennisstafi. Alls hafa fimm skip í eigu Síldarvinnslunnar borið nafnið Barði þannig að nú bætist það sjötta í þann hóp. Á heimasíðu Síldarvinnslunnar er stuttlega getið um þessi skip til upprifjunar fyrir þá sem áhuga hafa á sögunni.

Fyrsta skipið í eigu Síldarvinnslunnar, sem bar nafnið Barði, var smíðað í Austur-Þýskalandi árið 1964. Um var að ræða síldveiðiskip sem var í eigu fyrirtækisins til ársins 1970.

Annar Barði var fyrsti skuttogari Íslendinga. Ljósm. Guðmundur Sveinsson.

Næsta skip, sem bar Barðanafnið, var fyrsti skuttogari Íslendinga. Síldarvinnslan festi kaup á skipinu árið 1970 og gerði það út til ársins 1979. Tilkoma skipsins markaði tímamót í útgerðarsögu Síldarvinnslunnar því áður höfðu öll skip fyrirtækisins verið smíðuð með uppsjávarveiðar í huga.

Þriðji Barðinn var skuttogari sem var í eigu Síldarvinnslunnar á árunum 1980-1989. Um var að ræða ísfisktogara. Skipið var keypt frá Frakklandi og leysti fyrsta skuttogarann í eigu fyrirtækisins af hólmi. Með kaupum á þessu skipi voru skuttogarar í eigu Síldarvinnslunnar orðnir þrír; Bjartur, Birtingur og Barði.

Þriðji Barði var ísfisktogari. Ljósm. Snorri Snorrason.

Fjórði Barðinn var frystitogari sem fyrirtækið festi kaup á árið 1989 og var í eigu þess til ársins 2002. Skipið hét áður Júlíus Geirmundsson og var gert út frá ísafirði.

Fimmta skipið, sem bar nafnið Barði, var skuttogari sem var í eigu fyrirtækisins á árunum 2002-2017. Upphaflega var um frystitogara að ræða en frá árinu 2016 veiddi skipið í ís. Togarinn var smíðaður árið 1989 fyrir Skipaklett hf. á Reyðarfirði og bar fyrst nafnið Snæfugl. Skipaklettur sameinaðist Síldarvinnslunni árið 2001 og eftir það var togarinn leigður skosku fyrirtæki um tíma og bar þá nafnið Norma Mary.

Fjórði Barði var frystitogari. Ljósm. Snorri Snorrason.

Nú er sjötti Barðinn í sögu fyrirtækisins að sjá dagsins ljós. Síldarvinnslan festi kaup á skipinu árið 2014 og fékk það þá nafnið Börkur, en þegar smíði nýs Barkar lauk í byrjun sl. sumars fékk það nafnið Börkur II. Um er að ræða uppsjávarskip sem smíðað var í Tyrklandi árið 2012. Skipið er 3588 tonn að stærð, 80,30 metrar að lengd og 17 metrar að breidd. Aðalvél þess er 5800 hestöfl af gerðinni MAK en auk þess er skipið búið tveimur ljósavélum, 1760 kw og 515 kw. Skipið er vel búið til tog- og nótaveiða og er burðargeta þess 2500 tonn.

Fimmti Barði var frystitogari smíðaður 1989. Ljósm. Þorgeir Baldursson.
Sjötti Barði er nú kominn til sögunnar. Ljósm. Hákon Ernuson.
Deila: