Börkur með fyrstu síldina

109
Deila:

Um hádegi í dag er Börkur NK væntanlegur með fyrsta síldarfarm haustsins til Neskaupstaðar. Afli skipsins er 890 tonn og mun hann allur fara til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið fyrir sig. „Við byrjuðum á að fara norður fyrir land. Þar höfðu Færeyingar verið að fá stórsíld og við vildum kanna möguleikana þar. Áður en við komum þarna norður hafði brælt og kólnað og síldin virðist hafa forðað sér þaðan. Þá héldum við austur fyrir land þar sem íslensk skip hafa verið að fá afla. Við fengum þennan afla á 20 tímum í Seyðisfjarðardýpinu og hann fékkst í fjórum holum. Þegar við lukum veiðum í morgun áttum við 32 mílur í land. Þetta er ágætis síld eða svipuð þeirri sem við höfum verið að veiða hér síðustu ár. Meðalvigtin er um 350 grömm. Þetta er án efa norsk-íslensk síld en það sést líka íslensk sumargotssíld í aflanum. Það virðist vera talsvert af síld þarna og vonandi á vertíðin eftir að ganga vel,“ segir Hálfdan.

Beitir NK er á makrílveiðum í Smugunni en þar hafa íslensku skipin verið að leita og veður hefur verið óhagstætt.
Ljósmynd Hákon Ernuson.

 

Deila: