Börkur og Beitir með íslenska sumargotssíld

98
Deila:

Börkur NK kom til Neskaupstaðar í fyrrinótt með rúmlega 1.000 tonn af íslenskri sumargotssíld. Vinnsla á síldinni hófst í gærmorgun í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Heimasíða Síldarvinslunnar ræddi við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki og spurði fyrst hvar síldin hefði fengist.

„Við fengum síldina í fjórum holum á tveimur dögum í Faxadýpinu. Minnsta holið var 135 tonn en stærsta 430 tonn. Þetta er síld sem er á bilinu 300-320 grömm, en stærri síldin fékkst seinni daginn sem veitt var. Það má segja að þarna hafi verið kroppveiði og það var svolítið af síld að sjá þegar leið á túrinn,“ segir Hjörvar.

Beitir NK kom síðan til Neskaupstaðar í morgun og er hann einnig með rúmlega 1.000 tonn af sumargotssíld. Mun vinnsla á afla hans hefjast strax og vinnslu á afla Barkar lýkur. Tómas Kárason skipstjóri segir að aflinn hafi fengist í fimm holum í Faxadýpinu. „Holin voru misjafnlega stór eða frá 150 tonnum og upp í 320 tonn. Við vorum heppnir með veður þannig að þetta gekk bara vel. Á næturnar fæst hrein síld, en í dagholunum þegar dregið er við botn er aflinn blandaður spærlingi,“ segir Tómas.

Ekki er gert ráð fyrir að Börkur og Beitir haldi áfram síldveiðum og er kolmunnaveiði í færeyskri lögsögu næst á dagskrá hjá þeim. Munu skipin skipta um veiðarfæri og halda á kolmunnamiðin að lokinni löndun á síldinni.
Ljósmynd Smári Geirsson

 

Deila: