-->

Bræla um allt land

Nú er bræla um allt land. Stóru skipin eru mörg fyrir austan og fara ekki út. Minni bátarnir eru auðvitað í landi líka og því lítið um að vera. Þegar kvotinn.is hringdi á vigtina í Grindavík í morgun varð Valgerður Valmundsdóttir fyrir svörum. „Það er einn af bátum Vísis að landa núna, Kristín, en annars verður líklega ekki meira um að vera í dag,“ sagði hún.

Í gær lönduðu nokkrir beitningarvélabátar, sem komu inn undan brælunni, sem var að bresta á. Þeir voru með frá tveimur og hálfu tonni upp í ríflega fjögur og hálft.  Aðeins einn bátur rær með net enn sem komið er frá Grindavík. Það er Hraunsvíkin sem landaði 4 tonnum í gær, en auk þess landaði Þórsnes 8 tonnum af netafiski.
Þegar kvotinn.is lagði leið sína niður á bryggju í gær voru Daðeyin og Hópsnesið að landa. Júlli á Daðey var þokkalega brattur með sín 4,5 tonn og sagði að þeir hefðu verið að flýja bræluna, enda spáði upp í 25 metra báli fyrir utan. Bræðurnir Óðinn og Kristinn á Hópsnesinu voru líka sæmilega sáttir. Báðir bátarnir voru með góðan fisk, rígaþorsk, stóran ufsa og fallega ýsu. Á meðfylgjandi myndum eru annars vegar Júlli á Daðey og hins vegar bræðurnir Kiddó og Óðinn á Hópsnesinu. Ljósmyndir Hjörtur Gíslason.
IMG_1027 (2)