-->

Brælur hömluðu strandveiðum

Tæplega 800 tonna veiðiheimildir voru ónýttar við lok fyrsta tímabils strandveiða í vor. Leyfilegur heildarafli var 2.375 tonn af kvótabundnum tegundum, en aðeins veiddust 1.600 tonn samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Fiskistofu. Það var aðeins á svæði A, frá Snæfellsnesi vestur á firði, sem leyfilegu hámarki var náð, reyndar fyrir tíu dögum.
Miklar og stöðugar brælur hömluðu sjósókn mikið og reyndist heildarafli á bát aðeins frá tæplega tveimur tonnum upp í þrjú og hálft að meðaltali eftir svæðum. Ónýttar heimildir færast yfir á næsta tímabil, sem hefst á morgun. 538 bátar lönduðu afla þetta fyrsta tímabil. Langflestir eru bátarnir á svæði A, 219, en mun færri á hinum svæðunum, í kringum 100. Mestar heimildir til veiða eru sömuleiðis á svæði A, 715 tonn af kvótabundnum tegundum, en minnstar á svæði B, 509 tonn. Aflinn á svæði A varð  710 tonn, 293 tonn á svæði B, 206 tonn á svæði C og 391 tonn á svæði D.
Meðfylgjandi mynd tók Þorgeir Baldursson af strandveiðibát út af Norðurlandi í fyrra. Á henni innbyrðir Viðar Sigurðsson vænan þorsk.