-->

Breytingar á sjávarútvegsstefnu ESB kynntar

Ráðherraráð Evrópusambandsins og Evrópuþingið hafa náð samkomulagi um breytta og bætta sjávarútvegsstefnu ESB og til að kynna helstu efnisatriði hennar efnir Evrópustofa til opinna funda með Ole Poulsen, sérfræðingi í sjávarútvegsmálum ESB, í Stykkishólmi, Vestmannaeyjum og Reykjavík dagana 12. – 14. júní 2013. Fundurinn í Reykjavík er haldinn í samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands.

 Markmiðið með hinni breyttu og endurbættu stefnu aðildarríkja ESB í sjávarútvegi sem samkomulag hefur nú náðst um milli ráðherraráðsins og Evrópuþingsins er að gera fiskveiðar allra ESB landa sjálfbærar. Jafnframt er stefnt að því að auka stærð fiskistofna og draga almennt úr sóun verðmæta við fiskveiðar.

Sjávarúrvegsstjóri ESB, Maria Damanaki, sagði samkomulagið sögulegt skref sem leiða myndi til róttækra breytinga – þegar tilkynnt var um það 30. maí sl. Nefndi hún m.a. að ákvarðanataka yrði ekki lengur eingöngu í Brussel, heldur horft til svæðisbundinna lausna í sátt og samráði við hagsmunaaðila og viðkomandi stjórnvöld.

 Sérfræðingur í sjávarútvegstefnu ESB

Í tilefni þessa áfanga í endurskoðun sjávarútvegsstefnu ESB efnir Evrópustofa til kynningarfunda í Stykkishólmi, Vestmannaeyjum og Reykjavík með Ole Poulsen, einum helsta sérfræðingi Danmerkur í sjávarútvegsmálum, en Danmörk er stærsta fiskveiðiþjóð Evrópusambandsins.

 Ole Poulsen, sem nýlega lét af störfum hjá danska sjávarútvegsráðuneytinu, hefur tekið þátt í mótun sjávarútvegsstefnu ESB frá upphafi, þar á meðal þeirri endurskoðun sem staðið hefur yfir, auk þess sem hann hefur verið ráðgjafi sjávarútvegsráðherra Danmerkur í rúm 30 ár. Hann býr yfir afar yfirgripsmikilli þekkingu á hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB sem og áhrifum hennar á danskan sjávarútveg  og sveitarfélög þar sem sjávarútvegurinn er lífæð byggðalaganna.

 Ole Poulsen kemur til Íslands 10. júní og hittir bæði hérlenda sérfræðinga og fulltrúa íslensks sjávarútvegs. Hann mun einnig fjalla um þróun sjávarútvegstefnu ESB á þremur opnum fundum; í Stykkishólmi, Vestmannaeyjum og Reykjavík:

 12. júní: Hótel Stykkishólmur, Stykkishólmi, kl. 12.00-13.00.
13. júní: Hótel Vestmannaeyjar, Vestmannaeyjum, kl. l. 12.00-13.00.
14. júní: Norræna húsið, Reykjavík, kl. 12.00-13.00 – í samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands.

 

Fundirnir eru öllum opnir og eru allir áhugasamir hvattir til að mæta.