-->

Breytingar boðaðar á ráðstöfun aflamarks í samfélagslegum tilgangi

Samkvæmt frumvarpi til laga um breytingar á lögum um stjórnun fiskveiða, sem nú er til umfjöllunar á samráðsgátt stjórnvalda, er gert ráð fyrir því að horfið verði aftur til stjórnunar strandveiða frá árinu 2017. Það felur í sér að svæðaskipting verður tekin upp á ný. Jafnframt er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að rækju- og skelbætur verði lagðar niður og ákvæðum um línuívilnun verði breytt og ónýttar heimildir til hennar falli inn í byggðakvóta. Með frumvarpinu er verið að skýra nánar ráðstöfun á 5,3% hlutfalli úthlutaðs heildarkvóta til sértækra aðgerða eins og byggðakvóta.

Meginefni frumvarpsins. Í frumvarpinu eru lagðar til eftirfarandi megin breytingar á lögum um stjórn fiskveiða nr. 116/2006 sem nánar eru skýrðar í athugasemdum við einstakar greinar. Í fyrsta lagi er lagt til að sérstakt ákvæði komi í lög um stjórn fiskveiða þess efnis að þegar ráðherra hefur ákvarðað þann heildarafla sem veiða má úr einstökum nytjastofnun skv. 1. mgr. 3. gr. laganna skulu 5,3% aflamagns í hverri tegund tekin til hliðar fyrir atvinnu- og byggðakvóta. Er með þessu gert skýrt að áður en að aflamarki sé úthlutað í hverri tegund hafi 5,3% aflamagns verið ráðstafað í þessum samfélagslega tilgangi. Er þetta breyting frá núverandi framsetningu laganna þar sem m.a. er vísað til úthlutun aflamarks og frádráttar 5,3% aflamagns hverrar tegundar í sömu málsgrein 8. gr.

Í öðru lagi er lagt upp með að ákvæði um nýtingu 5,3% aflaheimilda til sérstakra aðgerða sem nú er að finna í ýmsum greinum laga um stjórn fiskveiða verði dregin saman í einn kafla í lögunum og skapi þar skýrari grunn undir nýtingu þeirra og meðferð en nú er. Jafnframt sé tilgangur og markmið einstakra aðgerða sem nánar er tilgreindur í einstökum greinum dregin saman í einni markmiðsgrein. Þannig verði á einum stað að finna annars vegar ákvæði um markmið þessara aðgerða sem verða nefnd einu nafni, þ.e. atvinnu- og byggðakvótar, og hins vegar efnisákvæði um einstakar aðgerðir.

Í þriðja lagi er kveðið á um föst innbyrðis hlutföll í ráðstöfun umræddra 5,3% aflaheimilda milli einstakra verkefna. Er ætlunin að þau hlutföll byggi á ráðstöfun til einstakra aðgerða fyrir fiskveiðiárið 2019/2020. Jafnframt falli út ákvæði þess efnis að ráðherra skuli eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti leggja fram þingsályktunartillögu um fyrirhugaða meðferð og nýtingu umræddra heimilda til næstu 6 ára. Hefur framkvæmdin síðan verið sú að ráðherra hefur á grundvelli þingsályktunartillögunnar ákvarðað magn úthlutun fyrir hvert fiskveiðiár. Felur tillaga frumvarpsins í sér breytingu frá því sem nú gildir að því leyti að skiptingin er bundin til lengri tíma, þ.e. til sex ára í stað hvers fiskveiðiárs, en með því er stuðlað að auknum fyrirsjáanleika milli ára. Þá tryggi það að festa aflamagnið við hlutföll en ekki tonn að aflamagn sem til ráðstöfunar er á hverju ári fylgi breytingum á heildarafla einstakra tegunda. Nýtt ákvæði til bráðabirgða kveði á um endurskoðun þessa fyrirkomulags að 6 árum liðnum sbr. nánar hér að neðan en með því væru hlutföllin bundin fram að þeim tíma.

Í fjórða lagi verði tryggt að með úthlutun á almennum byggðakvóta sé lögð áhersla á stuðning við dreifðar sjávarbyggðir. Þannig verði föstu hlutfalli almenns byggðakvóta úthlutað til einstakra byggðalaga árlega og byggi sú úthlutun á meðaltals úthlutun fyrri ára á byggðakvóta. Jafnframt verði lögfest hlutlæg regla sem feli það í sér að slík úthlutun fari eingöngu til byggðarlaga að 2.000 íbúum en þó með þeim skilyrðum að úthlutun lækki um 0,1% fyrir hvern íbúa umfram 1.000. Felur þetta í sér nokkra breytingu frá núverandi lagaumgjörð og framkvæmd þar sem ráðherra, að höfðu samráði við Byggðastofnun, hefur verið heimilt að ráðstafa aflamagni á grundvelli tiltekinna efnisskilyrða skv. 10. gr. laganna.

Í fimmta lagi verði Byggðastofnun falið að gera samninga við einstök sveitarfélög um fyrirkomulag úthlutunar almenns byggðakvóta og skal ráðherra setja reglur um nánari útfærslu slíkra samninga í reglugerð. Jafnframt er kveðið á um það nýmæli að heimilt verður að bjóða opinberum aðilum, samtökum sveitarfélaga og fyrirtækjum aðild að slíkum samningum. Með þessum breytingum mun hlutverk Byggðastofnunar breytast úr ráðgjafahlutverki yfir í að hafa beina aðkomu að útfærslu, framkvæmd og eftirfylgni almenns byggðakvóta.

Í sjötta lagi er lagt upp með að ónýtt hlutfall línuívilnunar á hverju þriggja mánaða tímabili færist sem viðbót við almennan byggðakvóta. Því verði síðan skipt milli sjávarbyggða í samræmi við hlutdeild þeirra í löndun línuívilnunar miðað við meðaltal undanfarinna ára.

Í sjöunda lagi er gert ráð fyrir að hugtakanotkun um veiðar í tengslum við ferðaþjónustu verði betur skýrð og að um slíkar veiðar verði fjallað í sérstakri grein.

Í áttunda lagi verði kveðið á um að heimilt verði að semja í tilraunaskyni um nýtingu almenns byggðakvóta eða aflaheimilda vegna ónýttrar línuívilnunar til verkefna um aukna fjölbreytni atvinnulífs innan vinnusóknarsvæða. Þessi heimild verði hins vegar takmörkuð bæði hvað varðar aflamagn og fjölda verkefna. Heimildarákvæði til ráðherra að útfæra í reglugerð að Byggðastofnun eða öðrum opinberum aðila geti verið falin umsýslu með slíkum verkefnum á grundvelli samninga og mati á árangri.

Í níunda lagi er lagt til að ráðherra hafi á hverju fiskveiðiári til ráðstöfunar sem svarar til 8,10% af því aflamagni í óslægðum botnfiski sem tekið hefur verið til hliðar til atvinnu- og byggðakvóta sbr. 2. mgr. 8. gr. í varasjóði til að mæta óvæntum áföllum sem haft geta neikvæð byggðaáhrif.

Í tíunda lagi falli brott heimild ráðherra í 1. tl. 1. mgr. 10. gr. og þar með skel- og rækjubætur sem ráðstafað hefur verið undanfarin ár en það aflamagn renni í varasjóð, sbr. hér að ofan. Lagt er til að þetta verði gert í skrefum á tveggja ára tímabili til að veita handhöfum skel- og rækjubóta tíma til aðlögunar. Þá er að lokum lagt til að í lögin komi nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kveði á um að umrædd úthlutun og hlutfallsleg skipting aflaheimilda og aðgerðir þeim tengdum verði endurmetnar í ljósi reynslunnar og eftir atvikum breytt að sex árum liðnum ef þörf krefur.

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Síldin sækir til vesturs 

Mun meira var að sjá af norsk-íslenskri síld og kolmunna í nýafstöðnum rannsóknarleiðangri færeyska rannsóknaskipsins Jákups Sv...

thumbnail
hover

Smjörsteikt rauðspretta

Rauðspretta er sérlega góður matfiskur með alveg einstöku bragði. Hana má elda á fjölmarga vegu en að þessu sinni leituðum við...

thumbnail
hover

Benchmark fær rekstrarleyfi í Höfnum

Matvælastofnun hefur veitt Benchmark Genetics Iceland hf. rekstrarleyfi til fiskeldis að Kirkjuvogi í Höfnum, Reykjanesbæ í samræmi v...