Brim og Samherji áfram með mesta aflahlutdeild

141
Deila:

Litlar breytingar eru á hvaða aðilar eru í efstu sætunum yfir aflahlutdeild frá því sams konar upplýsingar voru birtar miðaðar við lok mars sl. í kjölfar úthlutunar aflamarks í deilistofnum um áramót. Eins og undanfarin ár eru Brim hf. og Samherji Ísland hf. í tveimur efstu sætunum. Brim hf. er með um 10,41% af hlutdeildunum en var í mars með 10,44%. Samherji er með 7,30%. Samanlagt ráða þessi tvö stærstu útgerðarfyrirtæki landsins því yfir 17,71% af hlutdeildunum í kvótakerfinu. Í 3. til 5. sæti eru Fisk-Seafood ehf. Sauðárkróki, Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað, og Þorbjörn hf. í Grindavík.

Þegar skoðuð er krókaaflahlutdeild útgerða þá er röðin á stærstu útgerðunum þannig að Grunnur ehf. í Hafnarfirði er stærsta útgerðin með 4,66% krókaaflahlutdeildanna. Í öðru sæti er Jakob Valgeir ehf. í Bolungarvík með 4,10% og síðan Stakkavík ehf. Grindavík í með 4,01% í þriðja sæti.

Fiskistofa hefur eftirlit með því að aflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila eða í eigu tengdra aðila fari ekki umfram þau mörk sem lög kveða á um. Í eftirfarandi töflum kemur fram staða aflaheimilda þeirra 100 útgerða sem ráða yfir mestum aflahlutdeildum 1. september sl. eftir úthlutun aflamarks í upphafi nýs fiskveiðiárs. Sambærilegar upplýsingar koma einnig fram um þær 50 útgerðir sem ráða yfir mestum krókaaflahlutdeildum. Á meðfylgjandi töflum eru hlutdeildir brotnar niður á einstaka aðila án tillits til þess hvort þeir teljist tengdir skv. 4. mgr. 13. gr. laga  nr. 116/2006

Útreikningur á hlut einstakra aðila í öllum aflahlutdeildum fer fram á grundvelli 1. mgr. 13. gr. laga nr. 116/2006. Úthlutað aflamark aðila í hverri kvótategund á grundvelli hlutdeilda er reiknað til þorskígilda. Þorskígildin sem þannig eru eignuð hverjum aðila eru síðan lögð saman. Hlutfall þorskígilda sem tilheyra aðila fæst með því að deila heildartölu úthlutaðra þorskígilda upp í þau þorskígildi sem tilheyra aðilanum. Sú hlutfallstala sýnir hve stórt hlutfall hlutdeildir aðilans eru af öllum hlutdeildum. Útreikningurinn til þorskígilda tekur til allra tegunda annarra en þeirra sem alfarið veiðast utan íslenskrar lögsögu en eru þó kvótabundnar, þ.e. þorskur í Barentshafi og rækja á Flæmingjagrunni eru ekki talin með.

Aflahlutdeild 1. september 2020 – 100 stærstu

Krókaaflahlutdeild  1. september 2020 – 50 stærstu

Hér má sjá til samanburðar töflur frá mars 2020 yfir þær útgerðir sem þá réðu yfir mestum aflaheimildum:

Aflahlutdeild 31. mars 2020 – 100 stærstu

Krókaaflahlutdeild  31. mars 2020 – 50 stærstu

Fjöldi útgerða sem ráða yfir hlutdeildum

Fiskistofa hefur tekið saman upplýsingar um fjölda útgerða sem ráða yfir hlutdeildum frá fiskveiðiárinu 2005/2006 til og með fiskveiðiárinu 2020/2021. Á stöplaritinu sést að útgerðum með aflahlutdeildum hefur fækkað á hverju ári frá 2005/2006 en á fiskveiðiári 2019/2020 fjölgaði þeim úr 442 í 711. Þessi fjölgun skýrist af kvótasetningu á hlýra og makríl. En á þessu fiskveiðiár fækkar þeim aðeins eða úr 711 í 691. Handhafar bæði  aflamarkshlutdeilda og krókaaflamarkshlutdeilda eru taldir með hvert fiskveiðiár. Línuritið á myndinni sýnir heildarúthlutun aflamarks í þorskígildum 1. september ár hvert.

Reglur og eftirlit með hámarkshlutdeildum

Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða má heildaraflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila eða tengdra aðila ekki fara yfir 12% af samanlögðu heildarverðmæti aflahlutdeilda allra tegunda. Þá má aflahlutdeild í þorski ekki fara yfir 12%. Í ýsu, ufsa, grálúðu, síld, loðnu og úthafsrækju má hún ekki fara yfir 20% og í gullkarfa og djúpkarfa ekki yfir 35%.

Heildarkrókaaflahlutdeild einstakra aðila eða tengdra aðila má ekki fara yfir 5% af samanlögðu heildarverðmæti krókaaflahlutdeilda. Þá má krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra eða tengdra aðila ekki fara yfir 4% í þorski og 5% í ýsu.

Þeim sem vilja kynna sér frekar reglur um hámarksaflahlutdeildir er bent á ákvæði 13. og 14. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006 með síðari breytingum.

Enginn aðili fer einn og sér yfir hámarkshandhöfn á hlutdeildum 2020/2021. Aðilum ber þegar fyrirsjáanlegt er að aflahlutdeild fari yfir lögbundin mörk að tilkynna um það til Fiskistofu sem veitir þeim  frest til að gera ráðstafanir til að koma aflahlutdeildinni niður fyrir mörkin. Það sama á við ef um er að ræða tengda aðila. Fiskistofa ræðst einnig í frumkvæðisathuganir á því hvort slík tengsl séu fyrir hendi.

 

Deila: