Brottkast – viðvarandi verkefni

238
Deila:

„Á líðandi ári varð veruleg fjölgun mála hjá Fiskistofu er varða brottkast og rekja má fjölgunina til þess að eftirlit var bætt með notkun dróna. Lög kveða skýrlega á um bann við brottkasti og því má hafa áhyggjur af þessum fjölda mála. Málið þarfnast sannanlega umfjöllunar og ávallt þarf að leita leiða til bæta enn umgengni við sjávarauðlindina.“ Þetta kemur fram í pistli frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar segir ennfremur:

„Það er verk að vinna og SFS munu nú sem fyrr sýna ábyrgð og metnað við úrlausn þess. Í því samhengi má árétta þrjá mikilvæga þætti, sem sýna hug samtakanna og félagsmanna þess í verki þegar kemur að brottkasti.

  • Árið 2020 settu fyrirtæki innan SFS stefnu í samfélagsábyrgð, sem grundvallast á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Einn liður í því að bæta hringrásina, var að fyrirtæki legðu sig fram við að uppræta brottkast. Að færa brottkast í orð var mikilvægt, þannig að varða mætti leiðina að markmiðinu um að uppræta það. Önnur samtök í útgerð hafa ekki markað viðlíka stefnu.
  • Í sumar hrintu SFS, ásamt Sjómannasambandi Íslands, Félagi skipstjórnarmanna og VM – Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, af stað átaki gegn brottkasti. Í kjölfarið var fræðsluefni miðlað til allra útgerða og sjómanna á þeirra vegum með fræðsluspjöldum um borð í skipum, kennslu á snjallforriti í síma og á heimasíðum hlutaðeigandi samtaka. Verkefni sem þetta verður að sjálfsögðu að vera viðvarandi, enda bæði þörf á símenntun þeirra sem eldri eru og kennslu til nýrra kynslóða. Önnur samtök í útgerð hafa ekki ráðist í viðlíka fræðslu.
  • SFS hafa ekki mótmælt því að drónar verði notaðir við eftirlit á sjó. Þegar málefnið var til umfjöllunar á Alþingi í upphafi þessa árs, voru SFS ekki mótfallin eftirliti með drónum. Tímar og tækni breytast og mennirnir með. SFS hafa ekki staðið gegn svo eðlilegum umskiptum. Við annan tón var kveðið í umsögnum annarra samtaka í útgerð.

Rétt er að hafa í huga að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið hefur í raun að geyma þrjú aðskilin kerfi; aflamarkskerfið, krókaaflamarkskerfið og strandveiðikerfið. SFS eru samtök þeirra er tilheyra fyrstgreinda kerfinu. Upptaka aflamarkskerfis var mikið gæfuspor í mörgu tilliti. Að því er brottkast varðar, þá hafði aflamarkskerfið þau jákvæðu áhrif að umgengni um auðlindir sjávar varð verulega betri. Hér á árum áður myndaðist því miður hvati til að henda fiski helst þegar kvóti var mjög takmarkaður samanborið við veiðigetu skips. Vandamál fyrri tíðar voru þannig aðallega rakin til bágs ástands þorskstofnsins og skorts á sveigjanleika í kerfinu. Með takmörkuðum heimildum til veiða á þorski, en jafnvel auknum heimildum til veiða á tegundum líkt og ýsu og ufsa, kom vandamálið glögglega í ljós. Í blönduðum veiðum þessara tegunda, þar sem aflaheimildir í þorski voru af skornum skammti, var honum jafnvel kastað.

Niðurstaða samstarfsnefndar, sem skipuð var af þáverandi sjávarútvegsráðherra árið 1994 og átti að gera tillögur að bættri umgengni um auðlindir sjávar, var að efling þorskstofnsins væri helsta lausn brottkasts og löndunar framhjá vigt.

Okkur hefur blessunarlega tekist vel til með aflamarkskerfið og lágmörkun brottkasts í því kerfi. Viðmiðunarstofn þorsks ber þess skýrlega merki. Sú mikilvæga meginregla gildir auðvitað hér á landi að allan afla, sem kemur í veiðarfæri skal koma með að landi og láta vigta í löndunarhöfn. Brottkast er því ólögmætt. Löggjafinn áttaði sig einnig á því, í samræmi við tillögur sérfræðinga, að nauðsynlegt væri að samhæfa hvata og markmið. Framsal aflaheimilda var grundvallarþáttur í þessari samhæfingu og aðilar geta nú gert ýmis konar ráðstafanir þegar um blandaðar veiðar er að ræða. Þannig er t.d. unnt að sækja sér aflaheimildir á markaði, framkvæma tegundatilfærslu eða nýta svokallaðan VS-afla samkvæmt reglugerð. Af þessum sökum eru engir hvatar lengur til staðar til að ástunda brottkast. Nýjustu upplýsingar um aukinn fjölda mála koma því á óvart og kalla á samvinnu vísinda, stjórnvalda og atvinnugreinarinnar, þar sem leitað verður skýringa á brottkasti innan áðurgreindra þriggja kerfa og viðunandi lausnir fundnar.“

Deila: