Brúarfoss kominn í þjónustu

Nýjasta skip Eimskips, Brúarfoss, kom til hafnar í Reykjavík í fyrsta sinn í gær þann 25. nóvember. Skipið er annað tveggja stærstu gámaskipa í sögu íslenska kaupaskipaflotans en Eimskip fékk systurskipið Dettifoss í sína þjónustu fyrr á árinu. Sigling Brúarfoss frá Kína, þar sem skipið var smíðað, tók 43 daga og var um 13.800 sjómílur með viðkomum í Taicang, Singapúr, Sri Lanka, Suez, Rotterdam og loks Danmörku, þar sem skipið var formlega tekið inn í siglingaáætlun Eimskips í síðustu viku.

Brúarfoss hefur eins og Dettifoss einstaka stjórnhæfni og er sérstaklega hannaður til siglinga á Norður-Atlantshafi, er með ísklassa og uppfyllir skipið svokallaðar Polar Code reglur sem eru nauðsynlegar til siglinga við Grænland.

Skipin eru umhverfisvænstu skip íslenskra kaupskipa miðað við flutta gámaeiningu og eru sérstaklega útbúin til að minnka losun köfnunarefnisoxíðs (NOx) og brennisteinsoxíð (SOx) út í andrúmsloftið.

Brúarfoss er þriðja og síðasta skipið af þremur sem eru sérstaklega smíðuð í Kína fyrir samsiglingar Eimskips og grænlenska skipafélagsins Royal Arctic Line en með samstarfinu hafa opnast spennandi tækifæri með tengingu Grænlands við alþjóðlegt siglingakerfi Eimskips.

Á skipinu er 16 manna íslensk áhöfn en skipstjóri í heimsiglingunni var Karl Guðmundsson og yfirvélstjóri Örn Engilbertsson. Sökum sóttvarnaráðstafana var fjölskyldum áhafnarmeðlima boðið að koma á hafnarbakkann og fylgjast með komu skipsins í bílum sínum.

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Fizza

Samkvæmt könnun sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi létu gera vilja margir landsmenn borða meira af fiski. En svo virðist sem fó...

thumbnail
hover

Skrýtið að þjóna til altaris

Maður vikunnar nú er fæddur Gaflari en á báðar ættir að rekja norður. Hann býr á Eskifirði en vinnur á Seyðisfirði. Hann hefu...

thumbnail
hover

Vill allt að 50.000 tonna fiskeldi...

„Fiskeldið er nú þegar einn af burðarásum atvinnulífsins og svo verður í framtíðinni, það er engin spurning. Starfsemi fiskeld...