Byrjaði 14 ára sem hálfdrættingur á Röðli

Deila:

Hann sleit barnsskónum í Flatey á Breiðafirði, en síðan lá leiðin suður á togara. Á sjónum var hann í 50 ár. Nú slakar hann á í sólinni á Spáni og myndi fara í draumafríið út í Flatey.

Nafn:

Ægir Franzson.

Hvaðan ertu?

Fæddur í Reykjavík enn fór 6 vikna til Flateyjar á Breiðafirði er mér sagt og ólst þar upp til 9 ára aldurs flutti þá til Reykjavíkur.

Fjölskylduhagir?

Giftur Sigríði Steinólfsdóttir og eigum við 3 börn og 4 barnabörn og 2 barnabarnabörn. 

Hvar starfar þú núna?

 Nýt lífsins á Spáni og er að byrja að vinna fyrir  Íslendingafélagið hér á Spáni sem skipuleggur ferðir fyrir Íslendinga.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

 Æsku minningar eru flestar tengdar bátunum í Breiðafjarðar eyjum og fá að fljóta með köllunum. En ég byrjaði sem hálfdrættingur á síðutogaranum  Röðli GK 518 í apríl 1967 þá 14 ára  Kláraði síðan Stýrimannaskólann 1974 og var stýrimaður og skipstjóri þar til að ég hætti 50 árum síðar eða 2017.  

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Þegar maður lítur til baka er þetta, gífurleg þróun sem átt hefur sér stað frá hamp trolli til þeirra margvíslegu veiðarfæra sem notuð eru í dag, gífurlegri þróun í veiðum, vinnslu og nýtingu afla hafa fengið að taka tekið þátt í veiðum það má segja um alt norður atlandshaf, þá má segja að þetta hafi bara verið skemmtilegt ævistarf.

En það erfiðasta?

Sjómennska er erfitt og áhættusamt starf sem hefur sem betur fer mikið breyst á síðustu árum og vil ég þakka það Slysavarnar skóla sjómanna. 

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Í fjölbreyttu starfi sem sjómennskan er kemur margt skrýtið fyrir í trollið kemur ýmislegt annað enn fiskur. 

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

 Sérstaklega á síðutogurunum hér áður fyrr voru margir kynlegir kvistirnir eins og sagt var, en það er einmitt stór partur af sjómennskunni að eiga góða vini og vinnufélaga, og svo hefur verið hjá mér.

Hver eru áhugamál þín?

Veiðar, stangveiði  og skotveiði og nú er maður farinn að fikta við gólfið hér á Spáni.


Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? 

Saltfiskur og allskyns fiskréttir

Hvert færir þú í draumfríið?

 Flatey á Breiðafirði…

Deila: