Byrjaði 15 ára í páskafríinu hjá Júpíter og Mars

258
Deila:

Maður vikunnar að þessu sinni hefur verið við sjávarútveginn í tæpa hálfa öld og hafa breytingarnar á þeim tíma verið hreinlega ótrúlegar. Hann er feginn að allur saltmoksturinn sé úr sögunni. Hann var 15 ára gamall, þegar hann byrjaði að vinna í fiski. Ofbakaður saltfiskur að hætti konunnar er uppáhaldsmaturinn hans.

Nafn:

Ægir Þórðarson.

Hvaðan ertu?

Frá Reykjavík, flutti vestur á Hellissand 1974.

Fjölskylduhagir?

Giftur, faðir og afi.

Hvar starfar þú núna?

Er verkstjóri hjá KG fiskverkun ehf. Rifi.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég var 15 ára gamall þegar ég byrjaði að vinna  hjá Júpíter og Mars í páskafríinu.  Þá voru allar stíur fullar af fiski og við skólakrakkarnir hjálpuðum til við að bjarga verðmætum.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það hefur verið afar skemmtilegt að fylgjast með allri þeirri miklu þróun og þeim auknu verðmætum sem hefur orðið á þeim tæpu 50 árum sem ég hef starfað við greinina.

En það erfiðasta?

Talandi um þróunina þá eru nú ekki svo mjög langt síðan hætt var að salta fisk í stæður með tilheyrandi saltmokstri frá morgni til  kvölds.  Það var virkilega erfitt.

Hvað er það  skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Auðvitað hefur maður lent í ýmsu skrýtnu á starfsferlinum. T.d. einn morguninn fyrir nokkrum árum síðan fór ég eins og vanalega fyrstur í vinnuna til þess að starta vinnslunni, fylla á körin og gera klárt fyrir flökun. Allt var orðið klárt , en ekkert  starfsfólk mætt í vinnu. Kíkti þá á klukkuna, sem var þá að verða 06:00 en við byrjum að vinna kl. 07:55  Þetta er ókosturinn við að vakna alltaf á undan vekjaraklukkunni.

Hver er eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Þeir eru að sjálfsögðu margir, en sá sem fyrst kom upp í hugann  er Benidikt Hákon Ingvarsson heitinn.

Hver eru áhugamál þín?

Veiði, dunda mér í bústaðnum og ferðast um á húsbílnum okkar í góðra vina hóp.

Hver er uppáhalds maturinn þinn?

Ofnbakaði saltfiskrétturinn sem konan eldar til hátíðarbrigða.

Hvert ferð þú í draumafríið?

Höfum farið til Tenerife undanfarin ár, en vegna ástandsins í heiminum um þessar mundir, þá komum við til með að ferðast innanlands á húsbílnum í sumar.

Deila: