Byrjaði 8 ára með gelluvagn

384
Deila:

Hann vill helst fá svið, hrossabjúgu og nautasteik í matinn í þessari röð. Í draumafríið langar hann að fara til Tene í þriggja vikna golfferð. Sá draumur gæti dregist á langinn, því nú ræður Covid-19 ferðinni og hans helsta viðfangefni þessa dagana er að stýra vinnslunni með þeim hætti að afstýra megi smiti hjá starfsfólkinu.

Nafn:

Gísli Eiríksson.

Hvaðan ertu?

Fæddur í Vestmannaeyjum 1963, og á heima í Þorlákshöfn í dag.

Fjölskylduhagir?

Í sambúð með Þórunni Jónsdóttir  og á fullt af börnum.

Hvar starfar þú núna?

Skinney Þinganesi í Þorlákshöfn.

Hvenær hófstu vinnu við sjávarútveg?

8 ára með gelluvagn í Vestmannaeyjum, 11 ára í saltfisk hjá Einarshöfn  á Eyrarbakka, og síðan verið meira og minna viðloðandi sjávarútveg.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Tæknivæðingin er svakaleg í sjávarútveginum og eru það forréttindi að fá að vera með og sjá margföldun á afköstum og verðmæti.

En erfiðast?

Þegar helvítis skynjararnir virka ekki og allt er stopp.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Pizzuveisla um borð í togaranum Jóni Vídalín.  Ég hafði aldrei verið með pizzu sem var unnin frá grunni, en þá var ég kominn með uppskrift frá frystitogara sem var mjög góð.  Hófst þá undirbúningur að græja botninn. Mér leist nú ekkert á magnið af deiginu, þegar ég var búinn að gera eina uppskrift, svo ég tvöfaldaði hana.  Nóta bene við á Jóni Vídalín vorum 15 menn en uppskriftin sem ég var með var fyrir 27 menn.  Nú leist mér miklu betur á þetta, svo var XXXXL álegg, jú þetta átti að vera matmikil pizza. Hádegi nálgaðist og ég setti pizzuna inn í ofninn. Mér fannst hún frekar þung og þykk en inn í ofninn  fór hún þykk og mikil, fimmtán mínútum síðar opnaði ég  ofninn og  mér brá, hún var 6-7 cm þykk og var samt ekki alveg tilbúin. Klukkan 12 tók ég til við að taka pizzuna út úr ofninum það var  meiriháttar verk hún var bókstaflega úti um allan ofn, og þurfti ég að beita brögðum til að ná henni út.  Þegar ég kom með hana inn í borðsal sagði Sverrir skipstjóri, „þessi pizza getur borðað mig.“  Ps. Hún var mjög góð.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Sverrir Gunnlaugsson, góður skipstjóri og vinur, skemmtilega hjátrúarfullur. Við vorum saman 20 ár til sjós.

Hver eru áhugamál þín?

Golf.  Er öldungameistari í GÞ. Ps. Ég var bara einn skráður.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Svið, hrossabjúgu og nautasteikur.

Hvert færir þú í draumafríið?

Þriggja vikna golfferð til Tene.

Deila: