Byrjaði 9 ára í skreið hjá Alliance

Deila:

Maður vikunnar á Kvótanum í dag er að öðrum ólöstuðum þekktari í heimi netagerðar á Íslandi en nokkur annar. Hann hefur unnið að þróun veiðarfæra í nær hálfa öld hjá Hampiðjunni og átt stóran þátt í ótrúlegri byltingu á því sviði. Vinnan hefur verið áhugamál í gegnum tíðina en í draumafríið færi hann til Indlands eða landanna þar í kring.

Nafn?

Guðmundur Gunnarsson.

Hvaðan ertu?

Fæddur og uppalinn í vesturbænum í Reykjavík en hef búið í aldarfjórðung í Hafnarfirði.

Fjölskylduhagir?

Ég er giftur Guðrúnu H. Arndal og  á tvö börn úr fyrra hjónabandi. Þau heita Ásdís Guðmundsdóttir og Heiðar Guðmundsson.

Hvar starfar þú núna?

Starfa í Hampiðjunni og er þróunarstjóri veiðarfæra. Hef komið að ansi mörgu áhugaverðu í veiðarfæraþróun Hampiðjunnar.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Byrjaði að vinna við í skreiðarvinnu hjá Alliance 9  ára gamall. Réði mig sem netamaður á Aðalbjörgu RE 5 árið 1963. Lærði netagerð hjá Guðmundi Sveinssyni netagerðarmeistara hjá netagerð Eggerts Theódórssonar í Reykjavík.
Var á Gróttu RE  í nokkra eftirminnilega mánuði 1968 og starfaði við ýmsar netagerðir þar réði mig til vinnu í Hampiðjuna árið 1970.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það að taka þátt í þeim gríðarlega miklu breytingum sem átt hafa sér stað í sjávarútvegnum og þá sérstaklega hvað snertir veiðarfæraþróunina.

En það erfiðasta?

Það er þegar allt gengur á afturfótunum með nýtt veiðarfæri en mikil gleði og ánægja ef og þegar tekst að leysa úr vandmálinu til hagsbóta fyrir viðskiptavininn og Hampiðjuna.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Veit ekki hvort það telst skrýtið en ég réð ungan mann Jón Grétarsson í vinnu á netastofu Hampiðjunnar árið 1989. Hann var þá að ljúka önn í Háskólanum og vantaði vinnu um sumarið. Hann sýndi strax áhuga á tölvuteikningum af Gloríu flottrollinu sem ég vann að á þessum tíma. Hann fékk lánað teikniforritið og kom með trollteikningu til mín daginn eftir.
Upp frá þessu var Jón minn helsti samstarfsmaður í veiðarfærahönnun um árabil þar til hann var tekinn frá okkur, lést tæplega fimmtugur árið 2014.  

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Hef unnið með mörgum skemmtilegum og eftirminnilegum vinnufélögum hér í Hampiðjunni og nefni þar Magnús Gústafsson fyrrverandi forstjóri Hampiðjunnar og núverandi stjórnarformann HB Granda fremstan í flokki.

Hver eru áhugamál þín?

Vinnan hefur verið áhugmálið í gegnum tíðina. Ég hef alltaf lesið mikið og reynt að fylgjast með í faginu. Hef mikla ánægju af útiveru og hef gegnið mikið um uppland Hafnarfjarðar. Fer í sund 4-5 sinnum í viku og þar liðkast maður vel til í sundinu og pottunum.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Það er íslenski fiskurinn og lambakjötið sem eru í uppáhaldi þegar farið er yfir sviðið því ýmislegt hefur maður lagt sér til munns á ferðalögum um heiminn.

Hvert færir þú í draumafríið?

Mig hefur oft langað að fara til Indlands og landanna þar í kring.

Guðmundur með eiginkonunni Guðrúnu á góðri stund á Spáni.

 

 

Deila: