Christian í Grótinum til Skagen í dag

461
Deila:

Í dag er merkisdagur í skipasmíðastöðinni Karstensens Skibsværft í Skagen. Þá verður komið með skrokkinn af hinum nýja Christian í Grótinum eftir að hann hefur verið dreginn þangað úr skipasmíðastöð í Gdynia í Póllandi, þar sem skrokkurinn var smíðaður. Þetta er sami gangur og var á smíðunum á Vilhelm Þorsteinssyni og Berki. Í Skagen verður lokið við allan frágang í skipinu.

Það er dráttarbáturinn Formidable, dregur skrokkinn og er gangurinn milli sjö og átta mílur eftir aðstæðum. Engin hátíðahöld verða í Skagen vegna komu skipsins, en einhverjir af eigendum þess munu þó verða viðstaddir.

Christian í Grótinum á að verða tilbúinn til afhendingar eigendum í Færeyjum í janúar á næsta ári og er áætlaður kostnaður um 300 danskar milljónir, en það svarar til 6 milljarða íslenskra króna.

Þetta er fyrsta uppsjávarveiðiskipið sem Færeyingar láta smíða í 12 ár. Nú eru að auki þrjú önnur skip í bígerð. Hlutafélagið Hafborg og JFK hafa pantað sitthvort skipið frá tyrkneskri skipasmíðastöð og kostar hvort skip um 8 milljarða íslenskra króna. Þá lætur Framherji smíða fyrir sig skip hjá norsku skipasmíðastöðinni Vard og mun það kosta um 6.4 milljarða íslenskra króna.

Deila: