Danskur kvótakóngur grunaður um brask

144
Deila:

Efnaðasti útgerðarmaður Danmerkur er grunaður um að hafa keypt meiri fiskveiðiheimildir en honum er heimilt og að hafa skráð þær á aðra. Málið er talið umfangsmesta sakamál sem komið hefur upp í sjávarútvegi í landinu. Frá þessu er greint á ruv.is

Í byrjun aldarinnar tóku gildi lög í Danmörku sem heimiluðu sölu á kvóta. Það varð til þess að minni útgerðir seldu þeim stærri. Sá stórtækasti í kaupunum var Henning Kjeldsen, sem oft er kallaður kvótakóngur í dönskum fjölmiðlum. Þegar þak var sett á það hve mikinn kvóta má eiga skráði Kjeldsen hluta af sínum á eiginkonuna. Síðan hafa stjúpsonur hans og samstarfsfólk eignast töluverðan kvóta.

Danska efnahagsbrotalögreglan telur þetta lögbrot og hafa þau öll verið ákærð vegna málsins. Kvótakaup að jafnvirði tæpum fjórum komma sjö milljörðum íslenskra króna séu skráð á fólkið. Lögmaður og endurskoðandi Kjeldsen hafa einnig verið ákærðir. Samtals eru þetta níu manns.

Fjallað var um málið í fréttaskýringaþættinum 21 søndag í Danska ríkisútvarpinu, DR, á sunnudag. Þar var meðal annars rætt við Thomas Højrup, formann félags strandveiðimanna í Danmörku. Hann sagði að þeir hafi lent í því að Kjeldsen hafi boðið verð sem var mun hærra en þeir gátu boðið. „Einnig kom fyrir að við gátum boðið jafnt og hann og við nutum einnig verndar forkaupsréttarins. Lögfræðingar hans sættu sig illa við að forkaupsréttur gilti og við urðum að berja í borðið.“

Heimilisfang nokkurra fyrirtækjanna eru á heimili útgerðarmannsins. Sjálfur hefur hann sagt fyrir dómi að hann hafi lánað fólkinu til kaupanna og veiti ráðgjöf á meðan þau stígi fyrstu skrefin í útgerð. Samtals eiga þau tíu prósent af öllum fiskveiðikvóta í Danmörku.

Kjeldsen ólst upp í sjávarþorpinu Thyborøn og byrjaði í útgerð þar. Rætt var við hafnarstjórann þar, Jesper Holt Jensen, í þættinum. „Þegar einhver kaupir kvóta er það af því einhverjir vilja selja og hann hyggst skapa eitthvað úr þessu,“ sagði hafnarstjórinn. Þegar honum var bent á að Kjeldsen hafi líka auðgast á kvótakaupunum sagði hann: „Já, en í Thybøron er ekki bannað að þéna peninga.“

Þetta er talið umfangsmesta sakamál sem komið hefur upp í dönskum sjávarútvegi. Búist er við niðurstöðu dóms í sumar.

 

Deila: