Dauðir grindhvalir í Álftafirði

209
Deila:

Tíu grindhvalir sem syntu á land í Álftafirði á norðanverðu Snæfellsnesi um helgina eru allir dauðir. Tveir sem voru enn á lífi á sunnudag voru dauðir í gærmorgun. Þetta kemur fram í frétt ruv.is frá í gær. Frásögnin er svohljóðandi:

„Grindhvalirnir sáust fyrst nærri landi fyrir helgi en í gær kom starfsfólk Náttúrustofu Vesturlands að átta þeirra dauðum í fjörunni í austanverðum Álftafirði, þeirra á meðal var nýfæddur kálfur. Þá voru tveir enn á lífi og var öðrum þeirra, sem lá á hliðinni, hjálpað á flot.

Fundust dauðir í dag

Annar þeirra fannst dauður í morgun nærri hinum hvölunum. Vonast var til að sá síðasti hefði náð að synda á brott en hann fannst dauður utar í firðinum skömmu síðar. Mögulegt er að dýrin hafi drepist þegar fjaraði á ný í nótt. Mikið reynir þó á þau við að lenda í fjörunni og gætu hvalirnir því einnig hafa drepist í kjölfar þess að hafa strandað til að byrja með.

„Einn versti staður sem hugsast getur fyrir þessa tegund“

Engin önnur dæmi eru um að grindhvalir hafi strandað í Álftafirði. Sjórinn er grunnur í firðinum og tæmist hann nær alveg á fjöru. Á slíku grynni með sandbotni er erfitt fyrir hvalina að nota bergmálsmiðun til þess að átta sig. Mjög óvenjulegt er að þeir leiti svo langt inn við slíkar aðstæður.

Jón Einar Jónsson er forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi.

„Hér er til dæmis of grunnt til þess að þeir gætu verið að elta smokkfisk sem er þeirra aðalfæða og við sjáum engi merki um fiska hérna og að þeir hafi álpast hérna inn. Þannig þetta er svolítið skrítið tilvik. Þetta er grunnt og með aflíðandi botni og erfiðum sjávarföllum þannig þetta er einn versti staður sem hugsast getur fyrir þessa tegund.“

Grindhvalir strandað títt á síðustu árum

Jón segir að grindhvalir hafi gengið nokkuð títt á land á síðustu árum. Bæði á Snæfellsnesi og víðar.

„Hvort þetta sé einhver bylgja eða eitthvað slíkt vitum við ekki. En ef dýrin eru að taka meiri áhættu í sinni fæðuöflun eða slíkt. Kannski vegna breyttra átuskilyrða í sjónum, þá kannski eru auknar líkur á slysum undir slíkum kringumstæðum,“ segir hann.“

 

Deila: