-->

DNB sektaður um 400 miljónir

Norska fjármálaeftirlitið hefur sektað norska bankann DNB um 400 milljónir norskra króna, jafnvirði um það bil sex milljarða króna, fyrir slælega framfylgd laga um eftirlit með peningaþvætti, meðal annars í tengslum við viðskipti fyrirtækja í eigu Samherja við bankann

Bankinn ætlar ekki að áfrýja úrskurði fjármálaeftirlitsins, hefur þegar tilkynnt hana til norsku kauphallarinnar og bókfært hana í sínu bókhaldi.

Bankinn fær harða gagnrýni í skýrslu fjármálaeftirlitsins, sem segir að rannsókn sem gerð var á starfsemi bankans í febrúar í fyrra hafi sýnt að mikið vantaði upp á að bankinn framfylgdi lögum um eftirlit með peningaþvætti.

Framhaldsrannsókn í fyrravor, þar sem farið var ofan í saumana á viðskiptum fyrirtækja innan Samherjasamsteypunnar hafi einnig leitt alvarlegar brotalamir í ljós. Vegna þessa hafi eftirlitið metið það svo, að 400 milljóna króna sekt væri við hæfi.

Bankinn segir sjálfur í tilkynningu til Kauphallarinnar að í skýrslu Fjármálaeftirlitsins komi fram að nauðsynlegar upplýsingar hafi vantað um sex fyrirtæki í tengslum við rannsókn á máli Samherja.  Bankinn sé þessu sammála og segir að við innri rannsókn hafi sömu veikleikar komið fram.

Fram kemur í tilkynningu Fjármálaeftirlitsins að það hafi sent skýrslu um Samherja-málið í desember á síðasta ári.  Flest þau brot sem þar var fjallað um voru annað hvort fyrnd eða framin í tíð fyrri laga um peningaþvætti.

Í tilkynningunni segir einnig að bæði Fjármálaeftirlitið og efnahagsbrotadeild  hafi verið að rannsaka sömu þætti. Rannsókn efnahagsbrotadeildarinnar hafi verið flutt yfir til embættis ríkissaksóknara í Ósló sem ákvað að fella málið niður hjá sér en senda öll gögn til Fjármálaeftirlitsins. Mat hans var að málið ætti frekar heima hjá eftirlitsstofnun.

Fjármálaeftirlitið segir að rannsókninni hafi fylgt mikið af gögnum sem það hafi ekki séð áður, meðal annars yfirheyrslur yfir ákveðnum einstaklingum.  Engu að síður er það mat eftirlitsins að þau brot, sem ekki var fjallað um í skýrslu þess í desember,  séu ýmist fyrnd eða framin í gildistöku fyrri laga þar sem ekki var kveðið á um sektarheimildir.  Þau séu því ekki hluti af þeirri sekt sem lögð var á bankann í morgun.

DNB segir í yfirlýsingu að hann taki þessa gagnrýni alvarlega en tekur fram að bankinn sjálfur sé ekki grunaður um peningaþvætti eða hlutdeild í peningaþvætti. „Við verðum að þekkja okkar viðskiptavini og höfum innleitt það í okkar kerfum að allt sem þykir grunsamlegt er tilkynnt til efnahagsbrotadeildarinnar,“ segir Kjerstin Braathen, forstjóri DNB-bankans.

Fjármálaeftirlitið beinir spjótum sínum sérstaklega að stjórn bankans og stjórnendum og segir að ekki hafi verið lögð nægileg áhersla á aðgerðir gegn peningaþvætti.  Þá hafi viðbrögð bankans við þeim brotalömum sem bent hafi verið á ekki verið fullnægjandi. Því er bankinn ósammála ef marka má tilkynningu hans til Kauphallarinnar.

 

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Ertu öruggur um borð?

Vinnslustöðin, FISK Seafood og VÍS hafa hrundið af stokkum átaksverkefni sem ætlað er að beina kastljósum að öryggismálum á ski...

thumbnail
hover

Síldin sækir til vesturs 

Mun meira var að sjá af norsk-íslenskri síld og kolmunna í nýafstöðnum rannsóknarleiðangri færeyska rannsóknaskipsins Jákups Sv...

thumbnail
hover

Smjörsteikt rauðspretta

Rauðspretta er sérlega góður matfiskur með alveg einstöku bragði. Hana má elda á fjölmarga vegu en að þessu sinni leituðum við...