-->

Dró 440 kílóa túnfisk á stöng

Donna Pascoe, sjóstangveiðikona frá Nýja Sjálandi, veiddi í lok síðustu viku risavaxinn túnfisk á stöng. Fiskurinn vó 441,6 kíló og er að öllum líkindum sá stærsti sem nokkurn tíman hefur veiðst á stöng.Frá þessu er sagt á fréttavefnum fishupdate.com Þar kemur fram að ekki hafi verið leyfilegt að selja fiskinn, þar sem hann var ekki veiddur af skipi með leyfi til túnfiskveiða. Um 2 milljónir punda, 376 milljónir króna hefðu getað fengist fyrir fiskinn á uppboði samkvæmt fréttavefnum.
Pascoe veiddi fiskinn á 60 punda línu rétt utan við Þriggjakóngaeyju við Nýja Sjáland eftir fjögurra stunda langa og sögulega baráttu. Hún bíður nú staðfestingar samtaka sjóstangaveiðimanna á því að um stærsta fisk sögunnar sé að ræða. Hún ætlar að láta stoppa fiskinn upp og eiga til minningar um þetta einstæða afrek.