Efnahagskaflinn í ársskýrslu SFS uppfærður

Deila:

Í grein sem birt var á Radarnum nýverið kom fram að útflutningur sjávarafurða hefði verið ofmetinn í tölum Hagstofunnar um tæpa 10 milljarða króna í mars síðastliðnum. Sá útflutningur átti sér í raun stað á árunum 2020 og 2021, en tafir geta orðið á því að gögn berist til Hagstofunnar af ýmsum ástæðum. Slíkt er algengara fyrir uppsjávarafurðir en aðrar sjávarafurðir.

Farið er yfir þetta í frétt frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Það þýðir jafnframt að útflutningsverðmæti sjávarafurða á árunum 2020 og 2021 var vanmetið í eldri tölum. Verðmæti útfluttra sjávarafurða á árinu 2020 fer úr 270 milljörðum króna í tæpa 276 milljarða króna og á árinu 2021 úr tæpum 293 milljörðum króna í rúma 296 milljarða króna. Þar sem um talsverða breytingu er að ræða, einkum á útflutningi uppsjávarafurða, þótti ástæða til að uppfæra kaflann um efnahagsmál í ársskýrslu SFS sem birt var í byrjun síðasta mánaðar. Þetta hefur þó engin áhrif á umfjöllunina sem slíka, heldur aðeins einstaka tölur og myndir. Hér verður stiklað á stóru um helstu áhrif þessarar breytinga, en í skýrslunni sjálfri hefur verið bætt við skýringu undir hverri mynd þar sem tölur hafa breyst.
 

Áhrifin mest á uppsjávartegundir …

Lítil breyting er á útflutningstölum botn- og flatfiskafurða, en útflutningsverðmæti þeirra námu 213 milljörðum króna á árinu 2021 í stað rúmlega 211 milljarða króna, líkt og fyrri tölur bentu til. Mun meiri breyting er á útflutningi uppsjávarafurða, en þar voru útflutningsverðmætin vanmetin um 5 milljarða króna á árinu 2020 og um tæpa 2 milljarða króna á árinu 2021. Af einstaka tegundum er mesta breytingin á útflutningi makrílafurða, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Þar má greina leiðréttingar niður á einstaka tegundir uppsjávarfiska.

… og á einstaka viðskiptalönd í Austur Evrópu

Ofangreint hefur eðlilega einnig nokkur áhrif á tölur um útflutning til einstakra landa, en áhrifin nú eru einna helst bundin við lönd í Austur-Evrópu. Langstærsti hluti þessara tæpu 10 milljarða króna leiðréttingu er á útflutningi til Póllands og Úkraínu. Þannig var útflutningur til Póllands vanmetinn um 4,5 milljarða króna samanlagt á árunum 2020 og 2021 og útflutningur til Úkraínu var vanmetinn um 3,9 milljarða króna. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá verðmæti útfluttra sjávarafurða fyrir og eftir breytingar á árunum 2020 og 2021 til Póllands og Úkraínu. Halda ber til haga að útflutningur sjávarafurða til Úkraínu er mun meiri en þessar tölur benda til, þar sem stærsti hluti sjávarafurða sem fluttur er til Litháens endar í Úkraínu. Lítil sem engin breyting var á útflutningi sjávarafurða til Litháens. Í ársskýrslunni er fjallað um vægi einstaka markaðssvæða í heildarverðmæti útfluttra uppsjávarafurða þar sem Evrópu var skipt í tvennt; Austur og Vestur. Eftir þessar breytingar er ljóst að vægi Austur-Evrópumarkaðar er nokkuð meira á árunum 2020 og 2021 en fyrri tölur bentu til. Á árinu 2020 var vægi þess markaðssvæðis 42% í stað 37% og á árinu 2021 31% í stað 29%.


Deila: