Eign í öðrum útgerðarfélögum reiknist inn í heildarhlutdeild

107
Deila:

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um stjórnun fiskveiða, sem koma á í veg fyrir að fyrirtæki geti fengið umráð yfir meira en 12% af heildar kvóta hverju sinni. „Markmiðið með framlagningu þessa frumvarps er því að kveða afdráttarlaust á um að þegar einstakur aðili kaupir hlut í öðru útgerðarfyrirtæki sem á fiskiskip með aflahlutdeild, hvort sem keyptur er minni hluti eða meiri hluti, leggst hið nýja hlutfall aflaheimildar við það sem fyrir var í eigu kaupanda,“ segir í greinargerð með frumvarpinu. Samkvæmt því er fyrirtækjum sem munu hafa hlutdeild umfram 12% gefinn festur til fimm ára til að lagfæra þá stöðu.

Í núverandi lögum er hámarks umráð sett við 12%, en ekki er þá miðað við eign í öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum, svo fremi sem ekki sé um meirihluta umráð. Ekkert fyrirtæki er nú með meira en 12% hlutdeild. Næst því er Brim með um 11% og næst koma Samherji og Síldarvinnslan með milli 6 og 7%. Samherji á nú tæp 50% í Síldarvinnslunni og yrði hlutdeildin reiknuð samkvæmt frumvarpi Páls yrði hlutdeild Samherja aðeins í kringum 10%.

„Sem dæmi má nefna að ef eigandi útgerðarfyrirtækis A sem á fyrir 5% aflahlutdeild kaupir 49% í útgerðarfyrirtæki B sem á alls 6% aflahlutdeild verður heildaraflahlutdeild útgerðarfyrirtækis A samtals þau 5% sem fyrir voru að viðbættum 49% af 6% aflahlutdeild seljanda, eða tæp 3%, þ.e. alls tæp 8%. Þeirri breytingu sem lögð er til með frumvarpinu er því ætlað að koma í veg fyrir að allt að helmingur allra aflaheimilda geti safnast á hendur eins aðila.
Aðila ber eftir sem áður, skv. 1. mgr. 14. gr. laganna, að tilkynna Fiskistofu um kaup á eignarhlut í lögaðilum o.fl. sem snýr að því að aðili auki við aflahlutdeild fiskiskipa í sinni eigu og að fyrirsjáanlegt sé að samanlögð aflahlutdeild fari umfram þau mörk sem sett eru með 1. og 2. mgr. 13. gr. laganna.
Þá er lagt til að sett verði nýtt ákvæði til bráðabirgða sem mælir fyrir um aðlögunartíma fyrir þá aðila sem verða fyrir áhrifum af þessum breytingum og fara yfir lögbundið hámark aflahlutdeilda á grundvelli þeirra. Efni frumvarpsins getur haft íþyngjandi áhrif á atvinnustarfsemi sem byggð hefur verið upp í samræmi við gildandi lög á hverjum tíma og þykir því rétt að gefa þeim aðilum rúman aðlögunartíma að breyttum reglum. Sambærilegt ákvæði var sett í lög þegar krókaaflahlutdeild var felld undir reglur um leyfilega hámarksaflahlutdeild.
Þeirri breytingu sem lögð er til með þessu frumvarpi er ætlað að skýrar frekar þær reglur sem gilda um hámarksaflahlutdeild hverju sinni í lögum um stjórn fiskveiða og taka af allan vafa um að við kaup einstakra aðila á hlut í öðru útgerðarfyrirtæki leggst hlutfall aflahlutdeildar í eigu seljanda við þá aflahlutdeild sem fyrir er hjá kaupanda. Eru breytingarnar því til einföldunar og ætlað að styrkja stoðir heilbrigðrar samkeppni í sjávarútvegi,“ segir í greinargerðinni.

Deila: