Eimskip eykur afkastagetu siglingakerfis félagsins

Deila:

Eimskip mun í lok febrúar gera breytingar á siglingakerfi sínu með það fyrir augum að styrkja enn frekar þjónustu við viðskiptavini félagsins. Mikil aukning hefur verið í inniflutningi til Íslands á undanförnum misserum sem aukið hefur ójafnvægi í flutningum í siglingakerfi félagsins. Með þessum breytingum og fjölgun um eitt 700 gámaeininga skip mun afkastageta félagsins til og frá Evrópu og Norður-Ameríku aukast um 7-11%.

Helstu breytingar á siglingakerfinu eru þessar:

  • Ný rauð leið mun þjónusta Ísland, Færeyjar, Danmörku, Noreg, Svíþjóð og Pólland með tveimur skipum. Með rauðu leiðinni eykst afkastageta og skilvirkni siglingakerfisins og tækifæri gefast til vaxtar.
  • Grænu leiðinni, sem þjónustar Bandaríkin og Kanada, verður breytt þannig að hún mun sigla til og frá Íslandi, en með umskipun í Reykjavík verður hægt að auka bæði ferðatíðni og afkastagetu leiðarinnar. Styður sú breyting enn frekar við uppbyggingu flutninga á milli Norður-Ameríku og Evrópu, en góður vöxtur hefur verið í þeim flutningum undanfarin ár.
  • Gráa leiðin, sem verið hefur í þjónustu við Færeyjar, Skotland og Skandinavíu, fær nú annað hlutverk en verið hefur þar sem hún mun framvegis sinna vikulegri þjónustu í strandflutningum á Íslandi, auk þess að þjóna áfram Færeyjum og Skotlandi. Ferðatíðni og afkastageta í strandsiglingum mun aukast með vikulegum siglingum gráu leiðarinnar norður fyrir Ísland til Bretlands, með viðkomu í Færeyjum þar sem tenging næst við önnur skip félagsins. Strandflutningum verður eins og áður sinnt af bláu og gulu leiðinni sem þjónusta Grundartanga, Reykjavík, Helguvík, Vestmannaeyjar og Reyðarfjörð.
  • Þjónusta bláu og gulu leiðarinnar verður óbreytt frá því sem er í dag.
  • Með þessum breytingum er einnig dregið úr álagi á höfnina í Þórshöfn í Færeyjum þar sem stærstum hluta þeirra gáma sem áður var umskipað í Þórshöfn þarf ekki lengur að umskipa þar sem þeir ná nú beinni tengingu á milli hafna.

„Þessar breytingar á siglingakerfi Eimskips koma til með að styrkja kerfið í heild sinni og bæta þjónustuna. Flutningaþarfir viðskiptavina okkar taka sífelldum breytingum, en mikilvægt er fyrir félagið að geta mætt breyttri eftirspurn með því að auka afkastagetu, áreiðanleika og opna fyrir möguleika til vaxtar. Aukin gróska hefur einnig verið víða um land hér á Íslandi og því munum við aftur bjóða uppá vikulegar siglingar um ströndina. Breytingarnar auka enn á vaxtartækifæri Eimskips á markaðssvæði félagsins á Norður-Atlantshafi og framundan er uppbygging á hafnarsvæðum í Reykjavík, Þórshöfn í Færeyjum og Nuuk á Grænlandi sem gefa mun færi á notkun stærri skipa á svæðinu, en stærri skip munu leiða til hagkvæmari og umhverfisvænni flutninga,“ Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips.

Eimskip nýtt leiðakerfi

 

 

 

Deila: