Einhamar Seafood kaupir FleXicut vatnsskurðarvél

422
Deila:

Einhamar Seafood hefur fjárfest í Marel FleXicut kerfinu sem verður sett upp í fiskvinnslu félagsins í Grindavík. Með FleXicut eykur Einhamar sjálfvirkni í framleiðslu sinni sem mun bæta ferla og auka gæði lokaafurða til muna.

Nýja kerfið mun sjálfvirknivæða tvo mikilvæga ferla fyrirtækisins, gæðaskoðun og bitaskurð. FleXicut vatnsskurðarvélin greinir beingarð í flökum af mikilli nákvæmni með röntgentækni og fjarlægir beingarðinn og sker flakið í fyrirfram ákveðna bita með vatnsskurði. Samhliða FleXicut kerfinu verða einnig sett upp FleXisort vörudreifingarlausn og FleXitrim forsnyrtilína.

Á myndinni eru frá vinstri til hægri: Stefán Kristjánsson og Sandra Antonsdóttir, eigendur Einhamar Seafood, með Óskar V. Óskarsson frá Marel og Alda A Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Einhamar Seafood við undirritun samnings.

Eigendur Einhamar Seafood, þau Stefán Kristjánsson og Helena Sandra Antonsdóttir segja að FleXicut og FleXitrim muni koma með að hjálpa þeim að mæta mikilli eftirspurn, þá sérstaklega á sumrin þegar vinnuálag er sem mest. „Við horfum til þess að auka framleiðsluna, draga úr næturvinnu og bæta nýtingu,” segir Stefán.

Marel og Einhamar Seafood hafa verið í nánu samstarfi síðan 2005. Þessi nýjasta uppsetning er þriðja Marel kerfið sem Einhamar setur upp í vinnslustöð sinni og FleXicut og FleXitrim munu vera að fullu samtengd þeim Marel vélum sem nú þegar eru til staðar. Allar lausnir eru samtengdar Innova hugbúnaði frá Marel sem safnar gögnum um vinnsluferlið og sendir sjálfvirkt endurgjöf í rauntíma sem gefur starfsmönnum yfirsýn og stjórn yfir vinnsluferlin.

Samanlagt auka þessar lausnir afrakstur, gæði og öryggi, sem tryggir bætta verðmætasköpun í vinnslu Einhamars. Kerfin svara einnig þörf fyrirtækisins fyrir frekari sjálfbærni í framleiðslu þar sem sveigjanleg skurðmynstur FleXicut og samtengdur Innova hugbúnaðurinn lágmarkar yfirvigt með hverju flaki.

Alda Agnes Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Einhamar Seafood, hlakkar til að þjóna viðskiptavinum sínum á skilvirkari hátt framvegis. „Við getum jafnað afköstin, minnkað sveiflur og aukið skilvirkni í framleiðslunni. Ef við náum fram betri nýtingu, auknum afköstum og minni yfirvinnu, þá er tilganginum náð í bili!”

Einhamar og Marel undirrituðu samninginn 1. júlí 2020 og er uppsetning á dagskrá í nóvember.

 

Deila: