Eins milljarðs króna tap

95
Deila:

Í síðustu viku greindi Samherji frá því í tilkynningu að rannsókn norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein á starfsemi Samherja í Namibíu væri lokið. Þar var jafnframt útlistað hvert yrði framhald málsmeðferðarinnar. Var þar tekið fram að Samherji myndi á næstunni gera frekari grein fyrir einstökum ásökunum sem bornar hafa verið á félagið og starfsfólk þess. Farið er yfir málið í færslu á heimasíðu Samherja í dag.

Nú liggja fyrir samantekin reikningsskil fyrirtækja sem tengjast Samherja í Namibíu fyrir árin 2012-2018. Á síðasta ári voru settar fram alvarlegar ásakanir um hvernig staðið hefði verið að þeim rekstri. Af þeirri ástæðu var sérstaklega ráðist í að greina reksturinn mjög ítarlega í því skyni að draga fram rétta mynd af starfsemi félaganna og upplýsa hvað væri hæft í þessum ásökunum.

Rekstrartekjur dótturfélaga í Namibíu á tímabilinu 2012-2018 námu jafnvirði 41,1 milljarði króna og rekstrarkostnaður 38,9 milljörðum. Tap tímabilsins, að teknu tilliti til afskrifta, fjármagnsgjalda, tekjuskatts o.fl. nam jafnvirði 950 milljóna króna. Þegar allur rekstrarkostnaður í Namibíu var sundurliðaður nákvæmlega kom í ljós að 55% voru greidd namibískum aðilum eða 21,4 milljarðar króna á gengi dagsins í dag. Samherji telur að þetta sýni að ein alvarlegasta ásökunin sem sett var fram á hendur félaginu, um arðrán í Namibíu, er ekki reist á staðreyndum.

Stærsti útgjaldaliður tímabilsins var vegna launa, greiðslna til namibískra samstarfsaðila og veiðigjalda til namibíska ríkisins. Greiðslur til samstarfsfélaga (Joint ventures) í eigu Namibíumanna, namibíska ríkisins og annarra kvótahafa námu alls 29,3% af heildarveltunni og námu þessar greiðslur samtals 12 milljörðum króna að jafnvirði. Hlutfall veiðigjalda og launa á tímabilinu nam 51% af innlendum rekstrarkostnaði. Stærstur hluti rekstrarkostnaðar utan Namibíu var vegna launagreiðslna til skipverja, eldsneytis, leigu á skipum og viðhalds þeirra

 „Uppgjörið sýnir að fullyrðingar um að Samherji hafi farið frá Namibíu með mikinn hagnað eru rangar. Ásökun um arðrán í Namibíu var mjög þungbær fyrir stjórnendur Samherja. Tölurnar sýna hins vegar að greiðslur til namibískra aðila á tímabilinu námu rúmlega 21 milljarði króna á gengi dagsins í dag. Við bindum vonir við að birting þessara upplýsinga um reksturinn í Namibíu leiði til þess að umfjöllun verði sanngjarnari og byggi á staðreyndum,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja.

Ætíð hefur verið lögð áhersla á að félög tengd Samherja í Namibíu uppfylli skuldbindingar sínar vegna greiðslu launa, skatta og gjalda. Það sama gildir um samninga við namibíska samstarfsaðila, þar á meðal hin svokölluðu samstarfsfélög. Ágreiningur við samstarfsfélögin hefur verið leiddur til lykta fyrir namibískum dómstólum og var ekki fallist á kröfur þeirra.

Félög innan samstæðu Samherja hafa í gegnum árin þurft að lána dótturfélögum í Namibíu rekstrarfé og hefur stór hluti lánanna ekki fengist endurgreiddur. Öllum rekstri í Namibíu var hætt í árslok 2019 og er nú unnið að lokafrágangi. Félögin hafa því ekki verið gerð upp að fullu en fyrirséð er að umtalsverður hluti áðurnefndra lánveitinga muni ekki endurheimtast.

Félög tengd Samherja hættu starfsemi í Namibíu á árinu 2019. Á næstu vikum mun Samherji birta frekari upplýsingar um reksturinn.

 

Deila: