„Ekkert í dagbókum fyrrverandi framkvæmdastjóra styður fullyrðingar hans í Ríkissjónvarpinu“

95
Deila:

Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri yfir starfsemi Samherja í Namibíu, hafði sumarið 2016 uppi áform um að fara á bak við Samherja og hefja rekstur í Namibíu með öðru útgerðarfyrirtæki. Ætlaði hann að nýta sér þau viðskiptasambönd sem félög tengd Samherja höfðu byggt upp í landinu. Við starfslok Jóhannesar fundust ítarleg minnisblöð sem hann hafði ritað við ýmis tilefni meðan hann stýrði útgerðinni í Namibíu. Ekkert í þessum minnisblöðum, sem eru eiginlegar dagbækur, styðja þær fullyrðingar sem hann setti fram í þættinum Kveik í Ríkissjónvarpinu.

Þetta er á meðal þess sem er til umfjöllunar í nýjum þætti sem Samherji lét framleiða og var birtur á laugardag. Í þættinum er í fyrsta sinn greint frá þessum áformum og tilvist dagbókanna.

Í þættinum er einnig fjallað um aðdraganda þess að Jóhannesi var sagt upp störfum sumarið 2016 en hann hafði stýrt starfseminni í Namibíu frá árinu 2012. Óreiða einkenndi reksturinn framan af sem reynt var að taka á eftir föngum. Vorið 2016 kom í ljós að Jóhannes virtist ekki hafa neina stjórn á starfseminni og þá náðu starfsmenn Samherja ekki í hann þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

„Við ákváðum það um mitt ár 2016 að segja Jóhannesi Stefánssyni upp störfum vegna þess að við töldum ljóst að hann hefði farið á bak við okkur. Þegar við fórum að skoða reksturinn kom í ljós að það var regla í kringum rekstur skipanna úti á sjó en því miður var mikil óregla  á starfseminni í landi og því utanumhaldi sem Jóhannes Stefánsson bar ábyrgð á,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja í þættinum.

Í þættinum fjallar Þorsteinn Már einnig um mistök sem fólust í því að hafa ekki betra eftirlit með starfseminni í Namibíu. Samherji er nú í yfirgripsmikilli endurskoðun á stjórnarháttum og mun á næstunni innleiða sérstakt kerfi fyrir stjórnarhætti og regluvörslu sem gilda á um öll félög innan samstæðunnar.

Hægt er að nálgast þáttinn hér.

 

Deila: