-->

Ekkert sérstaklega erfitt, bara misjafnlega skemmtilegt

Maður vikunnar byrjaði að vinna í fiski um páskafrí þegar hann var á fjórtánda ári. Áhuginn tók svo kipp, þegar hann var 16 ára og byrjaði að vinna í fiski hjá Útgerðarfélagi Akureyringa. Nú starfar hann hjá Martaki. Hann langar í frí til Maldive eyja.

Nafn:

Guðjón Ingi Guðjónsson.

Hvaðan ertu?

Ég er fæddur í Reykjavík en ég ólst að mestu upp á Akureyri.

Fjölskylduhagir?

Ég er kvæntur Ragnheiði Elínu Árnadóttur framkvæmdastjóra hjá OECD í París. Börnin eru fjögur og barnabörnin einnig fjögur.

Hvar starfar þú núna?

Ég stýri sölumálum hjá þróunar- og framleiðslufyrirtækinu Martaki sem framleiðir hátæknibúnað og heildarlausnir fyrir sjávarútveg á alþjóðlegum markaði. Félagið er með starfstöðvar bæði á Íslandi og í Kanada.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Þegar ég var á fjórtánda ári fór ég til Ólafsfjarðar í páskafríinu og vann í tvær vikur hjá Hraðfrystihúsi Ólafsfjarðar. Ég hafði það skemmtilega hlutverk þar að sjá til þess að koma fiski að og frá því fólki sem var að handflaka. Mjög skemmtilegur og lærdómsríkar tvær vikur.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Áhugi minn á sjávarútvegi kviknaði þegar ég, sextán ára gamall, fór að vinna á sumrin hjá Útgerðarfélagi Akureyringa. Það var eitthvað sem heillaði mig strax við það fá að taka þátt í því mikilvæga verkefni að gera sem mest úr þeirri auðlind sem fiskurinn er. Ég hlakkaði til þess þá á hverjum morgni að fara í vinnuna og þannig hefur það verið síðan, í öllum þeim fjölbreyttu störfum sem ég hef unnið við í sjávarútvegi.

En það erfiðasta?

Það er ekkert sem er sérstaklega erfitt, heldur bara misjafnlega skemmtilegt.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Ég hef svo sem lent í ýmsu skrýtnu en mér er alltaf minnistætt þegar ég, þá gæðaeftirlitsmaður hjá Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda (SÍF), kom í vinnslu eina á Fáskrúðsfirði. Trillukarl sem var, ef ég man rétt, ekki sáttur við það verð sem hann fékk fyrir fiskinn sinn, ákvað að verka hann bara sjálfur í saltfisk. Hann hafði komið sér fyrir í litlum skúr og vann fiskinn þar. Til þess að fá að vinna fisk þurfti hann að vera með þvottakar, ljósaborð og vog í vinnsluhúsinu og sagðist hann sannarlega vera með það allt saman. Þegar ég kom síðan í vinnsluna kom í ljós að hann hafði dregið inn gamalt baðkar sem hann notaði sem þvottakar, ljósaborðið var bílrúða sem hann hafði sett lampa undir og vogina hafði hann bara tekið með sér að heiman, nánar tiltekið úr baðherberginu. Hann tók það reyndar fram að þessi baðvog hans væri nú kannski eitthvað biluð því hún sýndi alltaf eitthvað of mikið, í það minnsta þegar hann stæði á henni.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Ég hef átt fjölmarga skemmtilega og eftirminnilega vinnufélaga og vil ég síður fara að gera upp á milli þeirra.

Hver eru áhugamál þín?

Áhugamál mitt númer eitt, tvö og þrjú er að njóta lífsins og alls þess sem það hefur uppá að bjóða.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Ég elska mat og hef gaman af því að elda, ekki síst með konunni minni, og saman eldum við einmitt uppáhaldsréttinn minn sem við köllum „humar og Gunna“. Ég sé um humarinn en hún sér um Gunnu sem er sósa sem dansar við humarinn innan um bragðlaukana. Ástæðan fyrir Gunnu nafninu er sú að uppskriftina fengum við hjá Guðrúnu Ögmundsdóttur, kærri vinkonu sem kvaddi allt of snemma.

Hvert færir þú í draumfríið?

Það eru fjölmargir staðir sem koma til greina og má þar nefna Maldive eyjar.

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Mast heimilar eldi á sæeyrum í...

Í samræmi við reglugerð nr. 1133/2021 hefur Matvælastofnun ákveðið að skrá Sæbýli rekstur ehf. með fiskeldi í Grindavík. Um...

thumbnail
hover

Gat á kví við Vattarnes –...

Matvælastofnun barst tilkynning frá Löxum Fiskeldi fimmtudaginn 20. janúar um gat á nótarpoka einnar sjókvíar Laxa við Vattarnes í...

thumbnail
hover

„Norðlendingur“ fyrir austan. Enginn frá borði...

Kaldbakur EA 1 – togari Útgerðarfélags Akureyringa – landaði 110 tonnum á Akureyri í gærmorgun, uppistaða aflans var þo...