Ekki aðeins háseti heldur kokkur líka

191
Deila:

Hann byrjaði á sjó með pabba sínum 6 ára gamall. Hann munstraði sig svo hjá Samherja 16 ára gamall. Hann hefur mörg áhugamál og saltfiskur á norskan máta er í uppáhaldi hjá honum.

Nafn:

Hjörvar Kristjánsson.

Hvaðan ertu?

Fæddur á Akureyri en flutti snemma erlendis þar sem ég ólst að mestu upp, endaði sem betur fer aftur á Akureyri.

Fjölskylduhagir?

Giftur Sunnu Hlín Jóhannesdóttur og eigum við tvo unglinga, strák og stelpu.

Hvar starfar þú núna?

Verkefnastjóri á útgerðarsviði hjá Samherja á Akureyri.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Byrjaði á sjónum þegar ég var 15 ára en fór minn fyrsta túr með pabba mínum þegar ég var 6 ára. Hef verið viðriðinn sjávarútveginn alla tíð síðan, bæði á sjó og á landi.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Krafturinn, fólkið og fjölbreytileikinn.

En það erfiðasta?

Óvægin og neikvæð umræða um sjávarútveginn.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Ætli það sé ekki þegar ég réð mig í mitt fyrsta pláss hjá Samherja, þá 16 ára, og var upplýstur um það er ég kom um borð að ég væri ekki aðeins háseti heldur líka kokkur.  Það hafðist allt með góðri hjálp NMT símakerfis og Ömmu.  Ég veit það fyrir víst að sumir bættu vel á sig þetta sumar og eru enn að kljást við það.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Ætli það sé ekki hann Grasi sjómaður sem starfaði hér hjá Samherja.  Stórbrotinn karakter sem ég leit mikið upp til sem ungur maður.

Hver eru áhugamál þín?

Þau eru nú eiginlega of mörg, reiðhjól, fjalla og götu, krossarar, mótorhjól, vélsleðar, gönguskíði, fjallgöngur, ferðalög um landið og bara almennt bras og eftirlit á þessum tækjum mínum.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Klippfisk, borið fram að norskum hætti.

Hvert færir þú í draumfríið?

Ég færi í Ameríkureisu.

Deila: