Ekki fugl og enn síður fiskur!

121
Deila:

„Á dögunum lagði íslenska karlalandsliðið í handknattleik það rússneska að velli á Evrópumótinu og það nokkuð örugglega. Óvíst er í hvaða annarri íþrótt við myndum sigra Rússana, en látum það liggja milli hluta, enda íþróttir ekki efni þessarar greinar.“

Svo segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, í pistli á heimasíðu samtakanna.  Þar segir hún ennfremur:

„Við stöndum Rússum einnig framar í veiðum og vinnslu á fiski. Ennþá. Það gæti hæglega breyst á komandi árum. Íslendingar eru ekki stórir í alþjóðlegu samhengi þegar kemur að sölu sjávarafurða. Reyndar svo litlir að íslensk fyrirtæki verða sífellt að þróa og fjárfesta í nýjustu tækni og búnaði til þess að standast samkeppni. Í þessu felst styrkur íslensks sjávarútvegs. Þetta hefur blessunarlega gengið ágætlega og mörg innlend tækni- og iðnfyrirtæki hafa beinlínis náð fótfestu vegna fjárfestinga sjávarútvegsfyrirtækja og flytja nú út tæknilausnir fyrir tugi milljarða á ári.

En þá aftur að Rússunum. Kristján Hjaltason er sölustjóri rússneska risafyrirtækisins Norebo á meginlandi Evrópu. Rætt var við hann í Morgunblaðinu í fyrri viku vegna fyrirlesturs sem hann hélt á markaðsdegi Iceland Seafood International. Fram kemur í máli Kristjáns að rússneskur sjávarútvegur sé á fleygiferð og hann bætir við „… að árangur Íslendinga í veiðum, vinnslu, tækni og markaðsmálum sé þekktur víða um heim. Meðal annars sé horft til íslenska skólans við þróun sjávarútvegs í Rússlandi“. Allt er það gott og blessað, nema hvað Rússar stefna á sömu markaði og Íslendingar. Samkeppnin frá rússneskum sjávarútvegi er með öðrum orðum að aukast, og það með hjálp okkar Íslendinga. Rússar hafa sérstaklega leitað í smiðju íslenskra fyrirtækja þegar kemur að endurnýjun fiskvinnslu og skipa. Nú þegar eru Rússar byrjaðir að smíða, eða hyggjast smíða, 43 skip og 23 fiskvinnslur. Stærstu skipin eru yfir 100 metrar á lengd.

Umfang fjárfestinga er hreint ótrúlegt og það er ekki síst að þakka ýmiss konar efnahagslegum hvötum sem rússnesk stjórnvöld hafa innleitt til að styðja við þessa vegferð. Búast má við mun harðari samkeppni frá Rússlandi á alþjóðlegum fiskmarkaði á næstu árum. Því er vert fyrir þá, sem telja að uppstokkunar sé þörf í íslenskum sjávarútvegi, að hugleiða hvernig mæta á samkeppninni. Verði dregið úr hagkvæmni fiskveiða við Ísland verður það ekki bara tap fyrirtækjanna, heldur allra tap. Sumum finnst sjálfsagt að taka þessa áhættu, en þeir hinir sömu verða þá að taka það að sér að tryggja stöðu Íslands á alþjóðlegum markaði fyrir sjávarafurðir. Án fótfestu á alþjóðlegum markaði er íslenskur sjávarútvegur ekki fugl og enn síður fiskur.“

 

 

Deila: