-->

Ekki sáttir við aðferðir Hafró

Steinbítur handflakaður hjá Þórsbergi.

Steinbítur handflakaður hjá Þórsbergi.

Þórsberg vinnur mikið af saltfiski og greiðlega hefur gengið að selja hann, en verðið mætti vera hærra að mati Ara Hafliðasonar, rekstrarstjóra.

Þórsberg vinnur mikið af saltfiski og greiðlega hefur gengið að selja hann, en verðið mætti vera hærra að mati Ara Hafliðasonar, rekstrarstjóra.

„Það er tiltölulega rólegt hjá okkur í augnablikinu. Kópurinn er hættur í bolfiski á þessu fiskveiðiári. Við erum því að bíða eftir því að litlu bátarnir fari að koma inn í veiðina. Veiðin er að koma upp eftir að fiskurinn liggur í loðnunni sem leggst hér yfir á þessum tíma. Fiskiríið er að lagast hérna út af hjá okkur, en við erum með einn bát í Grindavík, Indriða Kristinn. Hann hefur verið að róa með línuna þaðan undanfarnar þrjár vikur. Við erum eiginlega að bíða eftir vorinu í hráefnisöfluninni,“

sagði Ari Hafliðason, rekstrarstjóri Þórsbergs hf. á Táknafirði, þegar kvotinn.is sló á línuna til hans.
Þórsberg er eingöngu með línu- og handfærafisk, gerir út báta á línu og kaupir einnig línu- og krókafisk á mörkuðum. Þórsberg vinnur aflann í ferskar afurðir, salt og frystingu. „Við erum með MSC vottun og vorum með þeim fyrstu hér á landi til að fá slíka vottun. Við leggjum mikla áherslu á það í útflutninginum að við séum með línufisk og að veiðarnar séu sjálfbærar , en fyrst og fremst erum við að hamra á gæðunum. 60 til 70% af fiskinum okkar er bara dagsgamall, þegar við fáum hann til vinnslu, svo við erum að vinna úr virkilega góðu og fersku hráefni,“ segir Ari.
En hvernig gengur að selja afurðirnar?
„Það er þungt í ferska fiskinum, sérstaklega Evrópu. Hins vegar hefur gengið ágætlega í saltfiskinum. Engin  læti í sölunni en við höfum verið að selja í hverri viku frá því fyrir jól og það hefur gengið ágætlega. Auðvitað vildi maður fá hærra verð, en verðið á saltfiskinum hefur ekkert lækkað í vetur, heldur styrkst ef eitthvað er frá því í haust, en verðið lækkaði mjög mikið síðustu tvö árin og er því í raun lágt enn.  Það hefur þó verið ágætis hreyfing á þessu.“
Hvernig gengur samkeppnin við Norðmenn á mörkuðunum ytra, nú þegar þeir eru með met afla og útflutning?
„Við erum auðvitað ósáttir við veiðigjöldin eins og fleiri því þau skekkja samkeppnisstöðu okkar út á við alveg gífurlega. Afkoman er ekkert sérstök í bolfiskvinnslu í dag og þar er kannski helst lágt verð á afurðum og gengið hefur verið að styrkjast, sem kemur beint  niður á tekjunum hjá okkur, en veiðigjöld sem eru hugsuð út frá tekjum í fyrra eða hitteðfyrra geta aldrei gengið upp. Það þarf að endurskoða þessi veiðigjöld algjörlega. Það er alveg nógu erfitt fyrir Íslendinga að keppa til dæmis við Norðmenn án þess að veiðigjöldin bæti þar gráu ofan á svart. Í Noregi er fiskverð talsvert lægra en hér, upp undir helmingi lægra en hér. Auðvitað er mjög erfitt að keppa úti á mörkuðunum keppinauta, sem búa við svona lágt verð. Þeir geta kannski verið ánægðir með fimm og hálfa evru á kíló af ferskum flökum í Frakklandi, sem skilaverð fyrir vikið.  Það gengur hins vegar verr vegna hærra fiskverðs og veiðigjalda í ofanálag. Samkeppnin er erfið þegar þetta er svona.“
Menn hafa verið að gagnrýna stofnmat Hafró og ráðleggingar um heildarafla, sérstaklega í ýsu. Hvernig horfir það við þér?
„Við erum ekki sáttir við aðferðir Hafró í stofnstærðarmatinu eins og rallinu. Það er bæði með litlu bátana og Kópinn, þótt hann geti sótt lengra, þá gengur þetta út á það að forðast ýsuna á haustin og steinbítinn þegar kemur fram á þennan ártíma. Af báðum þessum tegundum er alveg gríðarlega mikið inni á grunnslóðinni. Það er hins vegar búið að skera heimildir í þessum tegundum svo svakalega niður, að þessir bátar sem fengu sinn kvóta út á sína reynslu á þessum slóðum á sínu tíma, eiga mjög erfitt um vik því fiskigengdin hefur breyst svo mikið. Okkur finnst skjóta skökku við að ráðgjöfin skuli nánast eingöngu byggð á togararallinu. Það virðist ekkert tillit vera tekið til sjómannsins og hans reynslu í þessu. Ég skil alveg þessa vísindalegu hugsun, að gera þetta alltaf eins ár eftir ár, margar vísindalegar tilraunir ganga út á það, en ég held að það gangi ekki upp fyrir náttúruna, sem er svo breytileg. Það er að segja fiskurinn hreyfir sig til, annað hvort eftir fæðu, hitastigi og straumum. Ég held að það vanti algjörlega inn i þessi matsmódel öllsömul, hvernig ástand sjávar er og hve breytilegt það er.
Maður sér það  til dæmis eins og í laxveiðinni, þegar maður ber saman sumarið í fyrra og í hitteðfyrra. Í hitteðfyrra hefðu menn haldið að laxastofninn væri hreinlega að hverfa úr náttúrunni. Þá var nánast engin veiði allt í kringum landið. Í fyrra sumar var svo metveiði alls staðar. Auðvitað var það vatnsbúskapurinn og ástandið í sjónum sem réði þessum gangi mála. Ekki af því að lítið væri veitt eða einhverjar friðunaraðgerðir væru í gangi. Náttúran ræður ferðinni, en auðvitað þarf að ganga varlega um fiskistofnana, en ég held að þeir á Hafró séu alltof varkárir. Þeir taka ekki nægilegt tillit til breytileikans í náttúrunni og breytileikans í veiðinni.
Hugsaðu þér breytinguna frá því öll þessi netaveiði var hér og meira en helmingur af þorskaflanum tekinn í net á nokkrum mánuðum á vetrarvertíð árum og áratugum saman. Stóra fiskinum var hreinlega mokað upp. Nú er netaveiðin afeins örlítið brot af því sem áður var. Þetta  hlýtur að hafa einhver áhrif á þorskstofninn. Sumir tala um stærðina á þorskinum, sem er búinn að vera óvenjustór undanfarin tvö þrjú ár. Maður getur velt því fyrir sér hvort það sé gott. Okkur hefur allavega ekki þótt það gott fyrir afurðirnar hjá okkur. Það er verra að selja þennan stóra fisk, fyrir hann fæst hlutfallslega lægra verð. Það eru margir þættir sem þarf í rauninni að koma inn í þessa fiskveiðiráðgjöf.
Við erum alls ekki sáttir við Hafró frekar en flestir sem eru í þessum bransa. Það hafa flestir einhverjar athugasemdir við aðferðir þeirra. Við erum engu að síður sammála því að veiðarnar séu stundaðar á sjálfbæran hátt og það allt saman. En stofnstærðarmatið er hvergi í samræmi við að sem við sjáum á miðunum. Ég held þú getir spurt hvern einasta útgerðarmann og sjómann, sem eru að sækja á grunnslóðina um það. Þetta er öðru vísi með ýsuna á togurunum. Þeir hafa ekkert verið að fá eins mikið af ýsu og þeir sem eru að sækja á grunnslóðina. Hugsaðu þér þegar þorskkvótinn var skorinn niður í 130.000 tonn. Þá voru fleiri fleiri línubátar inni á Húnaflóa að veiða ýsu, en henni fylgdi talsvert af mjög lélegum smáum þorski, sem var landað sem „Hafróafla“, en þá voru skorðurnar við því minni en núna. Þetta var örugglega ekki gott að vera að veiða þennan smáa og lélega þorsk á þessum tíma, en það var á vissan hátt afleiðing veiðistjórnunar.
Þegar maður er á þorskveiðum á línu kemur ýsa með og það kemur steinbítur með ef menn eru á þeim svæðum sem við stundum. Núna er langa allt í einu farin að koma með. Það hefur aldrei verið svona lönguveiði eins og sást í haust, upp undir tonn í róðri. Þetta er væntanlega bara út af hlýnun sjávar. Hún er farin að dreifa sér miklu meira en áður. Þetta kemur ekkert fram í ráðgjöf Hafró, eða öllu heldur alltof seint,“ segir Ari Hafliðason.