Eldur slökktur um borð í Vestmannaey

109
Deila:

Góð þjálfun skipverja skipti sköpum þegar eldur kom upp í vélarrúmi ísfisktogarans Vestmannaeyjar VE síðdegis í gær. Þetta er mat bæði skipstjórans og slökkviliðsstjórans í Fjarðabyggð. Frá þessu er greint á ruv.is

Heyrðu sprengingu

Skipverjarnir 12 voru að klára veiðiferð og voru nýlagðir af stað í land þegar þeir urðu eldsins varir. „Þá urðum við varir við sprengingu og fljótlega varð okkur ljóst að það var kominn eldur í vélarrúmi. Þá var strax sett af stað neyðarplan eða neyðaráætlun eins og við erum þjálfaðir í,“ sagði  
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri í samtali við Rúnar Snæ Reynisson, fréttamann, þegar skipið lagðist að bryggju í Neskaupsstað um klukkan þrjú í nótt.

Alltaf hættulegt þegar eldur kviknar á hafi úti

Skipverjar freistuðu þess að slökkva eldinn en lokuðu vélarrúminu kirfilega þegar það tókst ekki og virkjuðu slökkvikerfið. „Það virðist hafa kæft eldinn strax en það var töluvert mikill eldur sáum við í myndavélum,“ segir Birgir Þór. Hann segir að vissulega hafi menn verið í hættu, enda alltaf mjög hættulegt þegar eldur kviknar á hafi úti, „en ég held að skjót og góð viðbrögð áhafnar hafi bara bjargað okkur hreinlega.“ 

Skipið vaktað með hitamyndavélum

Bergey, systurskip Vestmannaeyjar, dró skipið að bryggju og var það komið í örugga höfn í Neskaupsstað um þrjúleytið í nótt. Þar biðu Sigurjón Valmundsson, slökkviliðsstjóri Fjarðabyggðar og hans teymi sem hafði fylgst með bátnum á leið til lands og vaktað hann með hitamyndavélum. „Við staðfestum að eldurinn væri slokknaður og reykræstum síðan rýmið sem eldurinn hafði komið upp. Eldurinn virðist hafa slokknað alveg þarna í upphafi þökk sé snörum viðbrögðum skipverja þarna í byrjun.“

Deila: