Endurvinna „rockhopperana

244
Deila:

,,Við höfum selt útgerðum togveiðiskipa rockhopperlengjur í meira en þrjá áratugi og fram að þessu hafa lengjurnar farið í urðun eftir að þær hafa lokið hlutverki sínu. Nú vilja allir forðast urðun úrgangs og koma honum þess í stað í endurvinnslu innan hringrásarhagkerfisins.

Hampiðjan lítur á það sem hluta af sinni starfsemi að taka við veiðarfæraúrgangi og koma honum til endurvinnslu.  Stærsti hluti notaðra veiðarfæra fer nú til endurvinnslu en vandamál hefur verið með gúmmíið í rockhopperlengjunum. Eftir talsverða leit fannst að lokum endurvinnslufyrirtæki í Hollandi sem uppfyllir allar okkar kröfur.”

Þetta segir Árni Skúlason, framleiðslustjóri Hampiðjunnar í samtali á heimasíðu fytirtækisins, en hann hefur leitt verkefni sem gerir viðskiptavinum félagsins kleift að losa sig við gömlu rockhopperlengjurnar í endurvinnslu og forðast þannig óæskileg umhverfisáhrif sem fylgja urðun. En hvað eru rockhopperar?

Árni Skúlason

Í notkun í rúmlega 30 ár
Í stuttu máli má segja að rockhopperarnir hafi komið í stað hefðbundinnar bobbingjalengju úr stáli og gúmmíi fremst á neðra byrði trollsins. Rockhopperlengjan er unnin úr stórum gömlum og notuðum stálstyrktum vinnuvéladekkjum. Munurinn er sá helstur að í stað þess að rúlla eftir botninum, líkt og hefðbundin bobbingjalengja, dróst rockhopperlengjan eftir botninum og hoppaði yfir flestar fyrirstöður og hindranir.

Niðurstöður kanadískra rannsókna frá því um miðjan níunda áratuginn bentu til þess að með tilkomu rockhopperanna hefði dregið úr netasliti um 25% og olíukostnaði um 10-15%. Rockhopperar voru fyrst reyndir hérlendis í árslok 1989 um borð í ferskfisktogurunum Ottó N. Þorlákssyni RE og Ásbirni RE. Það kom fljótt í ljós að rokkhopperlengjan var til mikilla bóta, líkt og í Kanada. Trollin festust mun síður í botni og ,,grjóthopparinn,” eins og var farið að nefna þessa útfærslu, vafði ekki vængjunum eins mikið utan um sig eins og oft vill verða með venjulegri lengju og nánast ekkert grjót kom í trollið.

Samið við hollenskt fyrirtæki
Svo vikið sé aftur að endurvinnslunni kom fljótlega í ljós, að sögn Árna, að til þess að gera fá fyrirtæki í Evrópu réðu við að vinna nýtanlega afurð úr stálstyrktu gúmmíinu í rockhopperunum.

,,Á endanum fundum við fyrirtæki í Hollandi og sömdum við það um að senda utan tvo gáma, eða tæp 50 tonn af gúmmíi úr notuðum rockhopperlengjum, í tilraunaskyni. Þessi tilraunasending líkaði svo vel að samningar tókust um frekari sendingar og ég á von á að næsta sending fari utan í næstu viku eða í byrjun desember,” segir Árni en hann reiknar með að nokkur hundruð tonn af gúmmíi úr rockhopperlengjum falli til árlega hér innanlands.

,,Það er ósk okkar í Hampiðjunni og útgerðanna að leita allra leiða til að forðast urðun á úrgangi. Reyndar stefnir allt í að urðun verði bönnuð áður en langt um líður og Hampiðjan lítur á það sem sitt hlutverk að þjónusta útgerðarfélögin á allan hátt. Við seljum þeim vöruna og sjáum til þess að hún fái nýtt líf innan hringrásarhagkerfisins þegar hún hefur þjónað upphaflegum tilgangi sínum,” segir Árni Skúlason.

Deila: