„Enginn vill lenda í því að taka á móti þyrlunni vegna slyss um borð“

Deila:

Einar Kristinn Kristgeirsson annar stýrimaður á Björgu EA 7, togara Samherja, hefur umsjón með öryggismálum um borð í umboði skipstjórans. Hann segir að skipverjarnir séu mjög áhugasamir og tali mikið um öryggismál og æfingar séu haldnar reglulega.

Fjárhagslegur stuðningur frá Samherja vegna náms

„Ég útskrifaðist með skipstjórnarréttindi frá Stýrimannaskólanum 2019 og hef verið á Björgu svo að segja frá því skipið kom til landsins. Reyndar hef ég stundað sjómennsku alla mína starfsævi. Samherji studdi mig fjárhagslega til náms í Stýrimannaskólanum, sem gerði mér í raun og veru kleift að afla mér þessarar menntunar, full skipstjórnarréttindi,“ segir Einar Kristinn í samtali á heimasíðu Samherja.

Einar Kristinn og Jóhann Pálsson Rist bátsmaður fara yfir öryggismálin/myndir/Björn Steinbekk/samherji.is

Æfingar nokkrum sinnum í mánuði

Annar stýrimaður og bátsmaður sjá í sameiningu um að öryggismálin um borð séu í góðu lagi.

„Aðalatriðið er að allir skipverjar séu klárir á sínum málum og hlutverkum, komi upp neyðartilvik. Æfingar eru haldnar nokkrum sinnum í mánuði og oftar en ekki setjum við upp aukaæfingar ef okkur sýnist ástæða til. Allir eru annars mjög svo meðvitaðir um öryggismálin og eru á varðbergi gagnvart öllum þáttum. Þegar nýr skipverji bætist við, förum við með skipulögðum hætti yfir öll öryggismál með viðkomandi. Maður er í raun og veru alltaf með hugann við öryggismál, sérstaklega þegar við erum að störfum,“ segir Einar Kristinn.

Ör þróun í öryggismálum

Einar Kristinn segir að viðhorf sjómanna til öryggismála hafa tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Þróunin sé ör, til dæmis séu allar upplýsingar um öryggismálin að færast yfir í rafrænt form. Það sé mikill munur, enda úreldast prentaðar upplýsingar nokkuð fljótt.

Alltaf á tánum

„Slysavarnarskóli sjómanna er mjög mikilvægur í þessum efnum og svo auðvitað viðhorf sjómanna og útgerðanna. Hjá Samherja er til dæmis starfandi sérstakur öryggisfulltrúi sem hefur það hlutverk að styðja við bakið á okkur og þróa alla ferla í þessum efnum. Ekkert banaslys hefur orðið á íslenskum skipum vegna slysa á síðustu árum og sú staðreynd segir okkur auðvitað heilmikið. Björg er mjög vel útbúið skip varðandi öryggismál og meira að segja er gengið lengra en staðlar segja til um á sumum sviðum. Þannig er það reyndar á öllum skipum Samherja. Það vill enginn taka á móti þyrlu Landhelgisgæslunnar vegna slyss um borð. Það er bara þannig og þess vegna erum við alltaf á tánum,“ segir Einar Kristinn Kristgeirsson annar stýrimaður á Björgu EA.

Deila: