„Er bara ábyrgur fyrir 20-30%“

Deila:

Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja, segir að hingað til hafi aðeins verið birtir þeir tölvupóstar sem tengist beint vafasömum viðskiptaháttum Samherja í Namibíu. Hann hafnar því í samtali í Kastljósi, að verið sé að draga upp einhliða mynd af viðskiptum Samherja eins og stjórnendur fyrirtækisins hafa haldið fram.

„Ég get bara sagt að öll mín gögn og póstar, ég hef afhent þá til héraðssaksóknara og til rannsóknaraðila í Namibíu og gerði það auðvitað bara á síðasta ári. Og þeir póstar sem voru birtir voru fyrst og fremst bara þeir póstar sem sneru beint að þessu máli og það verða birtir fleiri póstar og mér finnst þetta þá bara ágætt að Samherji sýni þann vilja og að þeir ættu þá bara að afhenda þá alla tölvupóstana mína til héraðssaksóknara frá því 2011,“ sagði Jóhannes í Kastljósi í gærkvöldi.

„Þeir eru svona að ýja að því að þú sért að halda eftir einhverjum tölvupóstum frá fjölmiðlunum og Wikileaks sem þá sýna aðra mynd en dregin hefur verið upp af málinu í fjölmiðlum.“

Jóhannes er sammála því að Samherji sé að ýja að því að hann sé að halda eftir einhverjum tölvupóstum frá fjölmiðlum og WikiLeaks sem geti sýnt aðra mynd en dregin hefur verið upp af málum í fjölmiðlum. „Já en það stenst bara ekki. En eins og ég segi þá er þeim bara velkomið að reyna að villa um fyrir fólki og svoleiðis en rannsóknaraðilar og Wikileaks er með alla mína pósta,“ segir Jóhannes.

Segir yfirlýsingar Samherja skrýtnar

Jóhannes segir að yfirlýsingar Samherja hafi verið skrýtnar og nýtist rannsóknaraðilum í rannsókn á Samherja. „Þetta stenst ekkert. Til dæmis er búið að handtaka sex hákarla í Namibíu. Eitt málið er að þeir hafa þegið mútur frá Samherja upp á einhverjar átta hundruð milljónir. Ég er bara ábyrgur fyrir 20 eða 30 prósent af þeim. En þeim er bara velkomið að segja það sem þeir vilja,“ sagði Jóhannes í Kastljósinu.

 

Deila: