Er hægt að lækna sjóveiki?

Deila:

Hugsanlega verður hægt að meðhöndla sjóveiki í framtíðinni. Hugmyndir manna um sjóveiki hafa breyst með tilkomu nýrrar tækni eins og sýndarveruleika, segir sérfræðingur. Alþjóðleg ráðstefna um hreyfiveiki sem haldin hefur verið á Akureyri í þessari viku. Aukinn kraftur hefur verið settur í rannsóknir á þessu sviði, meðal annars vegna hárrar slysatíðni sjómanna og framfara í sjálfkeyrandi bílum. Frá þessu er greint á ruv.is

Um 80 manns frá yfir 15 löndum sækja ráðstefnuna. Hannes Petersen læknir er ráðstefnustjóri en hann hefur verið ötull í rannsóknum á sjóveiki síðustu ár. Hannes segir að allir með starfandi innra eyra finni fyrir hreyfiveiki, einkennin séu bara mismikil.

Hreyfiveiki heima í stofu

Hingað til hafi hreyfiveiki verið talin þau óþægindi sem fólk finnur fyrir á ferð, eins og sjóveiki, bílveiki og flugveiki. Í ljósi nýrrar tækni eins og sýndarveruleika séu þessar hugmyndir þó að breytast því hægt sé að finna fyrir hreyfiveiki heima í stofusófa með sýndarveruleikagleraugu. Hinar gömlu hugmyndir um að innra eyrað sé í lykilhlutverki í því að framkalla hreyfiveiki sem séu að breytast. Það gegni vissulega sínu hlutverki en vægi sjónarinnar í þessu samhengi sé meira en talið var.

Sýndarveruleikatæki nýtist við rannsóknir á sjóveiki

Á ráðstefnunni er hægt að sækja yfir 20 fyrirlestra og kynna sér nýtt sýndarveruleikatæki. Hannes sem ásamt fleirum hefur fest kaup á herminum segir tækið algjörlega nýtt en í því setur fólk á sig sýndarveruleikagleraugu og stendur á hreyfanlegri plötu. Það sameini því tvo þætti sem skipti sköpum í að framkalla hreyfiveiki, annars vegar sjáist umhverfið og hins vegar finni fólk fyrir hreyfingunni.

Í herminum er hægt að „fara“ á sjó, á skíði, fljúga um háloftin og ganga um á brún hárrar byggingar og getur hann framkallað sterk líkamleg viðbrögð eins og til dæmis sjóveiki. Hermirinn mun nýtast til rannsókna en þær eru margar í kortunum, segir Hannes. Markmiðið sé að auka þekkingu á vandamálinu og leita leiða til að meðhöndla sjóveikina. Þá verði jafnvel skoðað hvort eitthvað í genunum geti tengst sjóveiki. Svo geti sjómenn hugsanlega í framtíðinni komið í herminn og vanið líkamann við ölduganginn áður en þeir fari á sjó. Hann telur að sjóveikin muni alltaf fylgja okkur, hún sé ekki læknanleg enda ekki um eiginlega veiki að ræða.

Hannes segir aukinn kraft hafa verið settan í rannsóknir á hreyfiveiki undanfarin ár, meðal annars vegna hárrar slysatíðni sjómanna. Nýlegar rannsóknir sýni að sjómenn lendi í 30% af þeim slysum sem leiði til innlagnar á sjúkrahús. Þá séu framfarir í sjálfkeyrandi bílum líka ástæða en rannsóknir sýni að fólk í sjálfkeyrandi bílum finni fyrir hreyfiveiki.

 

Deila: